Þegar haustar þá smala menn til fjalla og á heiðum og svo er réttað. Við ætlum að taka stöðuna hjá Halldóri G Hálfdánarsyni sem er bóndi á Molastöðum í Fljótum í Skagafirði - en þar er verið að smala þessa stundina og svo er réttað í Holtsrétt bæði í dag og á morgun.
Á morgun fagna Alzheimersamtökin 40 ára afmæli og í tilefni af því heyrum við sögu Kolbrúnar Birnu Halldórsdóttur en eiginmaður hennar Hafsteinn greindist fyrir nokkru með sjúkdóminn en hann er fæddur árið 1970. Með Kolbrúnu kemur Thelma Jónsdóttir fræðslustjóri samtakanna og við fáum að heyra um þjónustu sem í boði er fyrir aðstandendur og sjúklinga.
Árni Matt Ýmsar forvitnilegar nýjungar voru kynntar á einni stærstu bílasýningu heims sem haldin var í vikunni í München í Þýskalandi. Þar komu við sögu fljúgandi bílar, sjálfkeyrandi rútur og ýmislegt fleira. Árni Matt er sérfræðingur okkar þegar kemur að því að fjalla um eitthvað framandi og forvitnilegt og hann kemur í þáttinn í dag.
Saga Garðarsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson eða Sveppi koma til okkar í dag en þau eru að fara af stað með glænýtt uppistand þar sem nokkrir af vinsælustu grínurum landsins koma saman í Sykursalnum og nefnist sýningin- Púðursykur.
Oumar Diouck, framherji Njarðvíkur, fékk viljandi rautt spjald í fyrri undanúrslitaleik í umspili Lengjudeildarinnar gegn Keflavík í fyrradag. Þar vildi hann koma sér í og klára bann sitt til að eiga séns á að taka þátt í mögulegum úrslitaleik. Í viðtali við fotbolta.net eftir leik staðfesti Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur, að seinna gula hafi borið að með viljandi hætti. Axel Kári Vignisson, lögfræðingur hjá aga- og úrskurðarmálum var á línunni.
Á sunnudagskvöldið verður frumsýnd hér á RÚV íslensk heimildamynd um fjórar ungar stúlkur sem stíga sín fyrstu skref sem leiðsögumenn veiðimanna við Laxá í Aðaldal, stærstu laxveiðiá landsins. Við settum okkur í samband við hljóðstofu RÚV á Akureyri fyrr í dag og spjölluðum við tvær af þessum stúlkum þær Alexöndru Ósk Hermóðsdóttur og Áslaugu Önnu Árnadóttur.