Jóhann Hlíðar Harðarson er okkar maður á Spáni. Í dag sagði hann okkur frá hitabylgjunni sem nú hrellir íbúa Spánar og reyndar íbúa Evrópu allrar. Þá sagði hann okkur af nýrri skýrslu um jarðskjálftasvæðið Torrevieja og nágrenni. Og af mikilli glæpaöldu á Costa del Sol, gömlu sumarparadís Íslendinga.
Nú klukkan fjögur hófst fyrsti leikur stelpnanna okkar á EM í Sviss. Okkur langaði að fá stemminguna fyrir utan völlinn beint í æð og hringdum í Sindra Þór Sigurðsson trymbil Tólfunnar.
Nú á meðan A landslið kvenna er að hefja keppni á EM í knattspyrnu heyrum við af lansliði Íslands í krikket. Margir þekkja íþróttina krikket en það sem færri vita er að Ísland á landslið í krikket. Við urðum aðf heyra meira af þessu og fengum til okkar þá Jakob Wayne fyrirliða landsliðsins og Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Bara Tala, en nýsköpunarfyrirtækið Bara tala er helsti máttarstólpi liðsins.
Íbúar í Grafarvogi tóku sig til og slógu sjálfir tún við Sóleyjarima í Grafarvogi í gærkvöld, eftir að hafa gefist upp á að bíða eftir að Reykjavíkurborg sæi um það eins og fyrri ár. Til stendur að reisa þarna fjölda íbúða nái áform borgarinnar um þéttingu byggðar í Grafarvogi fram að ganga, og eru íbúarnir ekki par sáttir við það. Við ræddum við einn þeirra, Sigrúnu Ástu Einarsdóttur um málið
Pósthlaupið fer fram síðar í mánuðinum, en það er fimmtíu kílómetra góðgerðarhlaup eftir gamalli landpóstaleið frá Staðarskála yfir í Búðardal. Hlaupið hefur verið haldið árlega frá því 22, þegar forstjóri póstsins Þórhildur Helgadóttir varð fimmtug, og fékk þá hugmynd, eins og maður gerir, að hlaupa fimmtíu kílómetra af því tilefni. Hún kom til okkar í spjall .
Og í lok þáttar hringdum við til Eyja en tveir starfsmenn um borð í Herjólfi, þeir Héðinn Karl Magnússon, einn skipstjóra Herjólfs og Pétur Eyjólfsson, einn yfirvélstjóra Herjólfs ætla að synda boðsund á laugardaginn frá Elliðaey og munu taka land við veitingastaðinn Tangann í Eyjum. Sundið er til minningar um Margréti Þorsteinsdóttur, konu Péturs og til styrktar LJÓNSHJARTA sem eru stuðningssamtök fyrir ungt fólk sem misst hefur maka og börn sem misst hafa foreldri. Pétur var á línunni hjá okkur.