Síðdegisútvarpið 6. mai
Við byrjuðum þáttinn á því að heyra í Ágústi Þór Ólafsson fréttamanni okkar fyrir norðan en hann var á ferð í Mývatnssveitinni fyrr í dag og hitti fólk á förum vegi bæði heima og ferðamenn enda einmuna blíða á því svæði.
Svo kom til okkar Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar til að ræða samtal um samvinnuverkefni en á morgun er málþing Vegagerðarinnar þar sem ræða á fjármögnun samgönguframkvæmda.
Hjólað í vinnuna hefst í tuttugasta og þriðja sinn á morgun. Af því tilefni komu þær Ragnhildur Skúladóttir, sviðstjóri fræðslu og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ og Linda Laufdal, sérfræðingur á fræðslu og almenningsíþróttasviði ÍSÍ til okkar.
Frakkland og Evrópusambandið vilja laða að vísindamenn sem staðsettir eru í Bandaríkjunum og hafa orðið fyrir barðinu á aðgerðum Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, gegn háskólasamfélaginu þar í landi. Áætlað er að gripið verði til hvata svo fræðimenn setjist að í Evrópu. Ragnheiður I Þórarinsdóttir, Rektor, er stödd á ráðstefnunni í Frakklandi. Við heyrðum í henni
Nú eru golfklúbbar landsins að opna hver af öðrum og á laugardaginn opnar fjölmennasti klúbbur landsins GR annan af tveimur völlum sínum þ.e. Korpúlfsstaðaravöll en Grafarholtið verður opnað viku síðar. Ýmsar breytingar eru á döfinni m.a. hvað varðar rástímaskráningu og við ræddum það við Gísla Guðna Hall formann Golfklúbbs Reykjavíkur.
Ísland er í efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna 2025 sem gefinn var út í dag. Norðmenn sem lengi hafa trónað á toppnum eru í öðru sæti ásamt Svisslendingum. Við ætlum að ræða þessi mál við Stefán Jón Hafstein.