Matvælastofnun hefur varað við neyslu á eggjum frá fyrirtækinu Landnámseggjum ehf. sem hafa best fyrir dagsetningu 7. október 2025. Einn eigenda Landnámseggja Valgeir Magnússon settist niður með okkur og fór yfir stöðuna.
Krabbameinsfélagið og SÍBS vilja hjálpa íslendingum að elda hollan og góðan mat og hafa því opnað vefsíðuna gottogeinfalt.is en þar er að finna einfaldar en hollar uppskriftir af girnilegum mat. Birgitta Lind Vilhjálmsdóttir, næringarfræðingur og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu og Gunnhildur Sveinsdóttir, lýðheilsufræðingur og verkefnastjóri hjá SÍBS komu til okkar.
Meistaradeildin rúllaði af stað í vikunni og síðustu leikirnir í þessu holli fara fram í kvöld. Mikil breyting var gerð á fyrirkomulagi keppninar í fyrra, Íþróttafréttamaðurinn Gunnar Birgisson settist hjá okkur og við spurðum hvernig þessi breyting hefði virkað og hvernig honum litist á keppnina í ár.
Mikið hefur verið um það undanfarið að keðjur í fasteignaviðskiptum slitni sér í lagi langar keðjur. Formaður Félags fasteignasala kallar eftir þjóðarátaki hjá kaupendum til að breyta markaðnum; selja fyrst, kaupa svo. Monika Hjálmtýsdóttir er formaður félags fasteignasala og hún var á línunni.
Hinn heimsþekkti hollenski kvikmyndaleikstjóri og ljósmyndari Anton Corbijn verður meðal heiðursgesta á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem fram fer dagana 25.september til 5.október næstkomandi. Nokkrar af kvikmyndum hans verða sýndar á hátíðinni ásamt því að hann mun taka þátt í „Spurt & svarað“ að sýningum loknum. Þá mun hann stýra meistaraspjalli og ræða þar verk sín og feril. Jón Agnar Ólason markaðs- og ritstjóri RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík kom til okkar í Síðdegisútvarpið.
Í gær tók sjónvarpsrisinn ABC þáttinn Jimmy Kimmel Live af dagskrá vegna ummæla Kimmels um áhrifavaldinn Charlie Kirk, sem var skotinn til bana í síðustu viku. Kimmel hefur verið einn vinsælasti spjallþáttastjórnandi vestra um áratuga skeið. Við hringdum til Los Angeles og ræddum við Dröfn Ösp Snorradóttur - Rozas sem þar er búsett.