Í gær birtist grein á Vísi og yfirskriftin var : Við undirrituð, bæjar- og sveitarstjórar á Íslandi, mótmælum öll lokun annarrar af tveimur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar með tilheyrandi skerðingu á þjónustu og ógn við innanlandsflug sem þar af hlýst. Undir þetta rita bæjar- og sveitarstjórar Akureyrarbæjar, Múlaþings, Dalvíkurbyggðar, Vesturbyggðar, Vestmannaeyjabæjar, Fjarðabyggðar, Norðurþings, Þingeyjarsveitar, Ísafjarðarbæjar og Sveitarfélagsins Hornafjarðar Við heyrðum í Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra Vestamnnaeyjabæjar í þættinum.
Rás 2 tekur þátt í stærsta útvarpsþætti Evrópu í næstu viku. Þátturinn nefnist Europe's Biggest Gig. BBC Radio 1 framleiðir þáttinn í samstarfi við EBU. Siggi Gunnars kom til okkar.
Það bárust tíðindi úr Umhverfisráðuneytinu því umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson hefur hækkað veiðigjöld á hreindýr um 20% fyrir tarfa og 19% fyrir kýr
Við heyrðum hljóðið í Áka Ármanni Jónssyni formanni Skotvís um þessar nýju vendingar.
Helvítis fokking febrúar er ný spunasýning sem sýnd verður í Tjarnabíó sunnudaginn 23. febrúar. Hópur spunaleikara mun, meðal annars, nýta það helsta sem staðið hefur upp úr í fréttum í febrúar sem innblástur til að búa til brakandi ferskt grín á staðnum. Því má því segja að úr verði eins konar “áramótaskaup” fyrir febrúar. Þeir Sindri Kamban og Stefán Gunnlaugur komu til okkar.
Jón G. Hauksson, blaðamaður hefur opnað nýjan vef, Grafarvogur.net, sem hann hyggst uppfæra daglega með nýjum fréttum og fróðleik. Jón leit til okkar.
Íslandspósti hefur verið falið það hlutverk fyrir hönd ríkisins að sinna alþjónustu á Íslandi til ársins 2030, fyrir sendingar bæði innanlands og til annarra landa. Skilyrði fyrir alþjónustu er að öllum landsmönnum skuli standa til boða ákveðin lágmarksþjónusta á viðráðanlegu verði og að uppfylltum ströngum gæðaviðmiðum. Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, var fyrsti gestur okkar í dag.