Nú er upp runninn sá árstími þar sem tilboðsdögum á netinu rignir yfir okkur enda stutt í jólin og allt það. Það er of oft við mannfólkið sem erum veikasti hlekkurinn í svikatilraunum. Við föllum fyrir fagurgala eða vel útfærðum netsvindlum. Þá er það oft heilbrigð tortryggni og gagnrýnin hugsun sem getur komið í veg fyrir það að við sitjum uppi með sárt ennið. En í hverju felst sú heilbrigða tortryggni og gagnrýna hugsun. Til okkar kom Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Út er komin bókin Skólastjórinn eftir Ævar Þór Benediktsson. Bókin sem hefur fengið glimrandi dóma fjallar um Salvar tólf ára gamlan vandræðagemling sem sótti um stöðu skólastjóra í skólanum sínum, því honum fannst það fyndið, alveg þar til hann fær stöðuna. Ævar Þór kíkti í kaffi til okkar.
Þorkell Máni Pétursson, stjórnarmaður hjá KSÍ, segir knattspyrnufélög landsins þurfa að hugsa sjálf hvernig þau vilji gera betur í leikjum og mætingu á þá. Viðburðirnir þurfi að vera spennandi, hvort sem það eru karla- eða kvennaleikir. Þorkell Máni kom til okkar.
Og svo er það fréttaritari okkar í Cartagena á Spáni Jóhann Hlíðar Harðarson sem var á línunni hjá okkur strax að loknum fimm fréttum og við spurðum hann fregna úr sólinni.
Í nóvember ár hvert fyllist Reykjavík af lífi og tónlist í hverjum krók og kima þar sem upprennandi Íslenskir listamenn og alþjóðlegar stórstjörnur koma fram og leika list sína. Á hátíðina mæta tónlistarunnendur sem ráfa um tónleikastaði í leit að næstu stjörnum íslensks tónlistarlífs eða til að horfa á sitt uppáhalds atriði. Sindri Ástmarsson frá Airwaves mætti til okkar og við heyrðum einhver tóndæmi.
Skoðanakannanir benda til að íbúar bandarísku stórborgarinnar New York kjósi Zohran Mamdani sem borgarstjóra í dag. Hann er 34 ára múslími og yfirlýstur sósíalisti og hefur heitið að lækka framfærslukostnað hins venjulega íbúa borgarinnar. Kosningabaráttan hefur einnig snúist um viðbrögð við glæpum og hvernig best sé að eiga við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann hefur hótað að draga verulega úr framlögum alríkisins til New York nái Mamdani kjöri. Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas okkar kona í Bandaríkjunum var á línunni og ræddi Mamdani og kosningarnar.