Síðustu tvo daga höfum við fjallað um flutning vínbúðarinnar á Akureyri úr miðbænum í norðurhluta bæjarins og höfum bæði heyrt í aðstoðarforstjóra ÁTVR sem sagði flutninginn hafa verið nauðsynlega ákvörðun fyrirtækisins því ekki fannst annað hentungra rými í miðbænum. Við heyrðum líka í kaupmanni í miðbænum á Akureyri og bæjarstjóranum sem höfðu af þessu nokkrar áhyggjur og við fengum líka skoðanir hlustenda. Í gær hringdum við í Vilhjálm Árnason þingmann Sjálfstæðiflokksins sem vildi meina að staðsetning nýrra vínbúða ráðist sannarlega ekki af lýðheilsusjónarmiðum.
Árni Guðmundsson félagsuppeldisfræðingur og formaður foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum var á línunni á eftir.
Nýr meirihluti í Reykjavík samþykkti í vikunni að veita ekki fyrirtækjum leyfi til að opna leikskóla í Reykjavík. Eins og kunnugt er hafði fyrirtækið Alvotech áform um að um að stofna leikskóla fyrir börn starfsmanna sinna í Reykjavík. Og Arion banki hafði uppi svipuð áform. Oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Hildur Björnsdóttir lýsti yfir verulegum vonbrigðum með þessa niðurstöðu og hún kom til okkar ásamt Alexöndru Briem fulltrúa í skóla - og frístundaráði fulltrúa Pirata í Borgarstjórn Reykjavíkur.
Nýlega ákvað byggðarráð Skagafjarðar að félagsheimilin Skagasel og Félagsheimilið í Hegranesi yrðu sett á sölu. Ekki eru allir sáttir við þá ákvörðun og nú hafa Íbúasamtök Hegraness sent opið bréf til meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar og Byggðalistans þar sem skorað er á meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að draga tafarlaust til baka áform um sölu. Við heyrðum í ÁlfhildiLeifsdóttur sem er sveitastjórnarfulltrúi í Skagafirði
Það eru mikil lífsgæði að búa við sjávarsíðuna eins og við fjölskyldan höfum gert undanfarin 15 ár hér í Skerjafirði. Nábýlið við sjóinn gefur bæði innblástur og er nærandi fyrir sál og líkama en nábýlið gekk aðeins of langt um helgina, því stórstraumsflóðið á laugardag var svo fádæma kröftugt að sjórinn fyllti garðinn okkar og endaði för sína inni í húsinu með þeim afleiðingum að vatn flæddi um allt í kjallaraíbúð, eyðilagði gólfefni og veggi og fjölmörg húsgögn. Þetta skrifaði Skúli Helgason borgarfulltrúi á FB síðu sína í morgun. Við hringdum í Skúla.
Við kíktum á æfingu á söngleiknum Stormi sem frumsýndur verður í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Þetta er nýr söngleikur eftir Unni Ösp og Unu Torfa. Siggi hitti Birtu Sólveigu, Sölku Gústafsdóttur, Berglindi Öldu Ástþórsdóttur, og Jakob Van Oosterhout.
Iðunn Andrésdóttir fréttamaður kom til okkar og sagði okkur af samskiptum Trump og Hamas.