Ísland lék dramatískan leik við Pólland á EM í körfubolta í gær þar sem íslenska liðið var undir lengst af en vann sig til baka af miklu harðfylgi og komst yfir þegar fáar mínútur lifðu leiks. Umdeildar dómaraákvarðanir féllu hins vegar með Pólverjum í lokin og svo fór að Pólverjar sigruðu. Sérfræðingurinn Todd Warnick birti í dag grein þar sem hann fullyrðir að þessir dómar hafi einfaldlega verið rangir og tekur þar með undir háværa gagnrýni þjálfara og leikmanna íslenska liðsins sem segja möguleikum þeirra á sigri hafa verið stolið. Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður var á línunni frá Póllandi.
Forsætisnefnd borgarinnar vinnur nú að endurskoðun fánareglna borgarinnar og er það gert til að gera það auðveldara að sýna þjóðum stuðning. Sjálfstæðismenn í borginni hafa lagt fram tillögu um sérstaklega hannaðan friðarfána til að ekki þurfi að flagga erlendum þjóðfánum við húsið. Við ræddum málið við Hildi Björnsdóttur oddvita sjálfstæðisflokksins í borginni.
Fasteignir Háskólans á Bifröst eru til sölu. Þar búa í dag á þriðja hundrað flóttamenn frá Úkraínu en í upphafi Úkraínustríðsins var gerður þríhliða samningur milli ríkisins, Borgarbyggðar og Háskólans á Bifröst um að koma á fót móttökustöð, úrræði sem vara átti í þrjá mánuði. Nú þegar stríðinu er ekki enn lokið veltir Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst því fyrir sér í aðsendri grein sem birtist á Vísi um helgina hvort þetta fólk hafi hreinlega gleymst. Margrét kom til okkar í Síðdegisútvarpið.
Þorsteinn Bachmann leikari kíkti til okkar í kaffibolla og sagði frá spennandi verkefnum og nýrri vinnu sinni sem fagstjóri hjá Kvikmyndaskólanum.
Í síðustu viku kom til okkar Sóldís Birta Reynisdóttir kennari og meistaranemi í grunnskólakennslu yngri barna og ræddi við okkur um sína upplifun af skóla án aðgreiningar. Hugmyndina sagði hún eina þá fallegustu sem menntakerfið okkar hefur tekið að sér, hugmynd sem virkaði vel á blaði en þegar horft væri til daglegs veruleika innan skólanna blasi önnur mynd við. Við ræddum áfram skóla án aðgreiningar og fengum til okkar Jónu Guðbjörgu Ingólfsdóttur þroskaþjálfa með sérkennsluréttindi og doktor í fötlunarfræði, en hún segir það ekki valkost að gefast upp á skóla án aðgreiningar.
Óskar Þór Þráinsson hlaupari sem heldur utan um vefinn hlaupadagskra.is kom til okkar í Síðdegisútvarpið en hann vill hvetja fólk til að halda áfram að hlaupa, stunda holla hreyfingu og setja sér markmið í kjölfar Reykjavíkurmaraþonsins sem þúsundir tóku þátt í. Óskar gaf góð ráð til að fara af stað eða halda áfram að hlaupa.
Lagalisti:
Friðrik Dór Jónsson - Hugmyndir.
E.L.O. - All over the world.
Lizzo - About Damn Time.
Coldplay - Feelslikeimfallinginlove.
Helgi Björnsson - Ég fer á Land Rover frá Mývatni á Kópasker.
Wings - With A Little Luck.
Teddy Swims - Lose Control.