Síðdegisútvarpið

Nýtt úr héraðsdómi, nýr formaður, nýr gagnagrunnur og hvað með skólamáltíðina?

Í smíðum er nýr gagnagrunnur utan um skráningu upplýsinga um íslenska nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Gagnagrunnurinn sem hefur fengið nafnið Frigg mun verða tekinn í notkun fyrir lok þessa árs. Frigg er samstarfsverkefni mennta og barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Stafræns Ísland og Sambands íslenskra sveitarfélaga um samræmt verklag við nemendaumsýslu og innleiðingu þvert á skóla og sveitarfélög. Ásmundur Einar Daðason mennta og barnamálaráðherra kemur til okkar á eftir og segir okkur betur frá þessu.

Opnað verður fyrir símann í Síðdegisútvarpi Rásar 2 á eftir. Spurt er eiga námsgögn vera fjölskyldum kostnaðarlausu eða ekki? Eins viljum við heyra skoðun ykkar á skólamáltíðum þ.e hvort ykkur lítist vel á þær verði gjaldfrjálsar. Endilega látið skoðun ykkar í ljós, síminn er 5687123.

Nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands tók til starfa á dögunum en það er Margrét Ágústa Sigurðardóttir lögfræðingur. En hver eru helstu verkefni framkvæmdastjóra Bændasamtakanna og hvaða áskoranir bíða Margrétar Ágústu á þessum nýja vettvangi ? Margrét kíkir í kaffi til okkar á eftir og við spjöllum við hana um það sem framundan er.

Við heyrum í fréttaritara Síðdegisútvarpssins í Texas, Guðbrandi Gísla Brandssyni eða Brandy Brandsson eins og hann er kallaður af innfæddum og forvitnumst um spennuna sem þegar er farin myndast varðandi fyrirhugaðar forsetakostningar ytra.

Eitt og annað hefur gengið á í Héraðsdómi í dag þar á sér stað aðalmeðferð í máli Péturs Jökuls Jónassonar, málið snýr innflutningi á um 100 kílóum af kókaíni árið 2022. Ragnar Jón Hrólfsson fréttamaður hefur fylgst náið með þessu og er hingað kominn.

Frumflutt

13. ágúst 2024

Aðgengilegt til

13. ágúst 2025
Síðdegisútvarpið

Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu í eftirmiðdaginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Þættir

,