Fyrir rúmu ári birti 16 ára íslensk stúlka færslu á Tiktok þar sem hún lýsti kynnum sínum af hópi á netinu sem kallaður er 764. Færslan vakti athygli bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Hópurinn 764 hringir nefninlega háværum viðvörunarbjöllunum þar, hjá alþjóðalögreglunni Interpol og evrópsku lögreglunni, Europol. Hjá þessum löggæsluyfirvöldum starfar fjölmennt lið rannsakenda við að afhjúpa bakmenn þessa hóps. Á þriðja hundruð mála eru til rannsóknar.
Hópurinn herjar á börn á aldrinum 8-17 ára, nær þeim á sitt vald með útsmognum hætti og kúgar þau til hrottalegra ofbeldisverka. Börnum er skipað að skaða sig og aðra, svo sem yngri systkini eða gæludýr. Börnin eiga að senda hópnum myndir af ofbeldinu eða framkvæma það í beinu streymi á netinu.
Við heyrum brot úr viðtali við íslensku stúlkuna sem festist í klóm hópsins. Móðir hennar lýsir einnig ráðaleysinu sem blasti við þeim.
Stefán Sveinsson tengiliður Íslands hjá Europol segir frá því hvernig hópurinn starfar, hvaða aðferðum hann beitir og hvernig lögreglu gengur að stöðva hann. Umsjón: Þóra Tómasdóttir.
Frumflutt
27. okt. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Þetta helst
Daglegur fréttaskýringaþáttur þar sem stór og lítil fréttamál eru matreidd á einfaldan hátt.