Lengi hefur verið ljóst að staða afreksíþróttafólks hér á landi er erfið. Þau sem keppa á efsta stigi fá vissulega styrki en þeir eru lágir og íþróttafólk þarf gjarnan að treysta á að mamma eða pabbi geti hlaupið undir bagga.
Anton Sveinn McKee segir mömmu sína hafa í gegnum árin verið sinn helsta stuðningsmann, en að það sé ekki eðlileg staða að þurfa að reiða sig á stuðning ættingja til að geta verið í fremstu röð. Hann segist þakklátur fyrir styrki og stuðning sem hann hefur fengið, meðal annars frá ÍSÍ, en að styrkjakerfið þurfi að bæta ef íslenskir afreksíþróttamenn eigi að geta keppt við þá bestu í heimi.
Afreksíþróttafólk lýkur sínum ferli án þess að eiga nokkur vinnumarkaðstengd réttindi, enda er stuðningur mest í formi styrkja en ekki launa. Anton, líkt og fleira afreksfólk, á engin lífeyrisréttindi og hann er heldur ekki gjaldgengur í íslensku heilbrigðiskerfi, heldur þarf að greiða fullt verð hér á landi ef hann veikist eða meiðist þar sem hann hefur æft í Bandaríkjunum undanfarin ár.
Eyrún Magúsdóttir fjallar um nýbirta skýrslu um breytingar á umgjörð afreksíþrótta hér á landi og aukinn stuðning og ræðir við Anton Svein McKee um hans sýn á þessi mál.
Frumflutt
23. maí 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Þetta helst
Daglegur fréttaskýringaþáttur þar sem stór og lítil fréttamál eru matreidd á einfaldan hátt.