Helga Arnardóttir kom til okkar í dag, en hún verður með Heilsuvaktina annan hvern þriðjudag í þættinum, eins og síðasta vetur. Í dag sagði hún okkur frá því sem hún ætlar að fjalla um í haust, til dæmis langvarandi einkenni Covid, þyngdarstjórnunarlyfjum, breytingar á lífstíl til að ná bata eða tökum á sjúkdómum, heilsusamlegt mataræði og hreyfingu, mýtur þegar kemur að heilsu og fleira.
Á Íslandi greinast árlega 15-20 konur með leghálskrabbamein og 3-5 deyja árlega vegna þess. Áhrifin eru auðvitað mikil á fjölskyldur, aðstandendur, samfélagið og atvinnulífið og meðferðin kostar gríðarlega mikið. Sirrý Ágústsdóttir er stofnandi Lífskrafts og hefur greinst með leghálskrabbamein tvívegis. Hún kom í þáttinn og sagði okkur frá Lífskrafti, sinni reynslu og markmiðinu að Ísland verði fyrsta þjóðin í heiminum til að útrýma leghálskrabbameini.
Við forvitnuðumst svo að lokum um arabíska menningu sem er fagnað með tónlist og dansi í Kramhúsinu þessa vikuna. Friðrik Agni Árnason skipuleggur hátíðina Arabískar Nætur í Reykjavík, ásamt Írisi Stefaníu, þar sem þau vilja sýna þennan fjarræna menningarheim í jákvæðu ljósi. Við heyrðum í Friðrik í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Don’t Try to Fool Me / Jóhann G. Jóhannsson (Jóhann G. Jóhannsson)
In My Life / The Beatles (Lennon & McCartney)
Missisippi / Cactus Blossom
Men Nazra / Nancy Ajram (Ziad Jamal)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR