VÆB bræður, Matthías og Hálfdán, stíga á svið í Basel fyrir Íslands hönd á fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision 13.maí. Hópurinn fer til Sviss síðar í vikunni og það er skiljanlega mikil spenna fyrir því sem koma skal. Rúnar Freyr Gíslason fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins og VÆB var hjá okkur í dag og fór með okkur yfir það sem er framundan og stemninguna í hópnum.
Léttsveit Reykjavíkur er stærsti kvennakór landsins, en hann samanstendur af 100 konum á öllum aldri með fjölbreyttan bakgrunn. Léttsveitin á þrjátíu ára afmæli í ár og verður því með ýmsa viðburði tengda afmælinu víða um landið. Við fengum þær Ingibjörgu Margréti Gunnlaugsdóttur, formann kórsins og Helgu Björk Jónsdóttur, kórfélaga, til að segja okkur frá kórnum, starfseminni og afmælisárinu.
Svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni. Í dag ræddi hann við okkur um rafmagnsleysið á Spáni og í Portúgal undanfarinn sólarhring og tengsl þess við veður. Hann talaði svo um þessa góðu tíð sem hefur verið undanfarið og bar hana saman við sama tíma í fyrra og svo skoðuðum við aðeins horfurnar framundan. Kemur hret? Einar fór með okkur yfir það í veðurspjallinu í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Vorið kemur / Diddú (Valgeir Guðjónsson, texti Jóhannes úr Kötlum)
Róa / VÆB (Ingi Bauer, Gunnar Björn Gunnarsson, Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir, enskur texti Peter Fenner)
Langferð (Aften) / Léttsveit Reykjavíkur (Matti Borg, texti Eygló Eyjólfsdóttir)
Þá mun vorið vaxa / Hjálmar (Þorsteinn Einarsson, texti Einar Georg Einarsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON