Um 730 unglingar í 8. til 10. bekk svöruðu því játandi að annar unglingur hefði brotið á þeim kynferðislega í Íslensku æskulýðsrannsókninni. Ekki tóku allir skólar þátt í rannsókninni og talið er að aðeins helmingur barna segi frá slíku ofbeldi, því má ætla að raunverulegar tölur séu hærri. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheill, kom í þáttinn og sagði okkur betur frá þessum niðurstöðum og fræðslu sem er í boði til dæmis fyrir foreldra.
Sýningin Gleðin að gera og vera var opnuð í Borgarbókasafninu í Spönginni í síðustu viku og þar má sjá svipmyndir úr fjölbreyttu starfi fatlaðs fólks hjá Virknimiðstöð Reykjavíkur og verk sem fatlað fólk á öllum aldri hefur unnið. Virknimiðstöð Reykjavíkur er úrræði fyrir fólk með fötlun á öllum aldri og samanstendur af þremur starfsstöðum sem eru starfandi í Efra Breiðholti og Grafarvogi, Opus: vinna og virkni, Iðjuberg og Smiðjan. Við heimsóttum Smiðjuna í gær og töluðum við Árna Elfar Guðjónsen, en hann tekur þátt í sýningunni, og Melkorku Eddu Freysteinsdóttur deildarstjóra Listasmiðjunnar.
Notkun nikótínpúða hefur verið talsvert í fréttum undanfarin ár, ekki síst notkun ungs fólks en einnig fullorðinna. Íris Þórsdóttir tannlæknir kom í þáttinn og sagði okkur frá því hvernig tannlæknar verða varir við notkun nikótínpúða í sínu starfi, en þeir geta séð, jafnvel talsvert áður en notendur átta sig, áhrif og afleiðingar slíkrar notkunar. Við fengum Írisi til að segja okkur hverjar afleiðingarnar eru og hvernig þetta lítur út frá sjónarhorni tannlækna.
Tónlist í þættinum í dag
Landíbus með jökri (Nú hvaða hvaða?) / Íkorni (Stefán Örn Gunnlaugsson)
Svo til / Latínudeildin og Rebekka Blöndal (Ingvi Þór Kormáksson, texti Rebekka Blöndal)
She’s Always a Woman / Billy Joel (Billy Joel)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON