Moulin Rouge, söngleikurinn sem gerist á samnefndum skemmtistað í París í lok 19. aldarinnar og er gerður upp úr gríðarlega vinsælli kvikmynd frá árinu 2001, var frumsýndur um helgina í Borgarleikhúsinu. Þetta er mikið sjónarspil, söngur, dans, eldheit ást í meinum, veisla fyrir augu og eyru. Þetta var frumraun Péturs Ernis Svavarssonar á Stóra sviðinu, en hann fer með hlutverk Babydoll sem er ein af söngdívum staðarins. Pétur er með BA í klassískum píanóleik og söng, hann hefur einnig klárað meistaranám í söngleikjum frá Royal Academy of Music í London og eins og það sé ekki nú, núna er hann í læknisfræði í HÍ og þurfti til dæmis að fá frí á æfingum til að fara í próf í læknisfræðinni. Það er greinilega nóg um að vera hjá Pétri Erni og við fengum hann til að segja okkur betur frá í dag.
Annað hvert ár fer fram einn stærsti viðburður í heimi kylfinga, Ryder Cup, þar sem lið samansett af 12 bestu kylfingum Evrópu keppa á móti 12 bestu kylfingum Bandaríkjanna. Gríðarlegur fjöldi mætir á staðinn til að horfa hvetja sitt lið og eðlilega flestir sem halda með heimaliðinu, en keppnin er haldin til skiptis vestan hafs og í Evrópu. Meðal rúmlega fjögur þúsund sjálfboðaliða á Ryder bikarnum í ár, sem fór fram um síðustu helgi í New York, voru hjónin Kjartan Drafnarson og Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir. Við slógum á þráðinn til þeirra og fengum að vita hvernig það kom til, hvað felst í því að vera sjálfboðaliði á svona móti og svo komumst við ekki hjá því að ræða framkomu áhorfenda, sem talsvert var fjallað um í fréttum, en þau segja að sjónvarpsáhorfendur hafi bara séð smá brot af því sem þar gerðist.
Klukkan sjö í kvöld hefjast svo aftur hraðstefnumót í Bíó Paradís og nú er fólk á aldrinum 45-60 ára hvatt til að koma en sárlega vantar þó fleiri karlmenn á stefnumótin sem þó hafa verið afar vinsæl og mæting góð. Við heyrðum meira af þessum stefnumótum frá Hrönn Sveinsdóttur og Ásu Baldursdóttur sem halda um stjórnartaumana í Bíó Paradís.
Tónlist í þættinum í dag:
Lífsbókin / Bergþóra Árnadóttir (Bergþóra Árnadóttir, ljóð Laufey Jakobsdóttir)
Ég skal bíða þín / Helgi Björns og reiðmenn vindanna (Michel Legrand, texti Hjördís Morthens)
Rikki Don’t Lose that Number / Steely Dan (W. Becker & Donald Fagan)
Everybody´s Talking / Harry Nilsson (Fred Neil)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR