Sjálfsvíg eru alvarlegt alþjóðlegt lýðheilsumál. Nýlegar rannsóknir sýna að eigi sjálfsvígsforvarnir að bera árangur þarf víðtækar samfélagslegar aðgerðir og þar er til dæmis ábyrg umfjöllun fjölmiðla mikilvægur þáttur. Nú er komin út, á vegum Landlæknisembættisins og Lífsbrúar - miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, handbókin Sjálfsvígsforvarnir: Ráðleggingar fyrir fjölmiðlafólk. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna á lýðheilsusviði embættis landlæknis var hjá okkur í dag og fór með okkur yfir þessar ráðleggingar, ekki síst vegna þess að með tilkomu samfélagsmiðla þar sem allir geta tjáð sig um allt opinberlega þá geta þær nýst öllum.
Forvarnasvið VIRK stendur fyrir morgunfundi á fimmtudaginn um kulnun og vinnumarkaðinn og þar mun Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sviðsstjóri forvarna hjá VIRK, fara yfir rannsókn á algengi kulnunar á íslenskum vinnumarkaði og greina eftir mismunandi þáttum. Einnig verður fjallað um þróunarverkefni hjá VIRK varðandi kulnun og starfsendurhæfingu.
Í Heilsuvakt dagsins var umræðuefnið heilaheilsa. Það er jafn mikilvægt að gera nýja og krefjandi hluti fyrir heilann eins og það er mikilvægt að borða hollan mat, hreyfa sig reglulega og sofa vel. Það sem fæstir vita hins vegar er að það er aldrei of seint að örva heilann á hvaða aldri sem er og vinna markvisst gegn elliglöpum og myndun alzheimers sjúkdómsins. Til dæmis að læra ný tungumál, ráða krossgátur, sudoku og læra dansspor er allt eitthvað sem getur örvað heilann okkar og auðvitað margt fleira. Þetta segir dr. Thomas Wood prófessor í barnalækningum og taugavísindum við Washington háskóla en hann er lykilrödd í umræðu um heilbrigðan lífstíl í Bretlandi og í Bandaríkjunum. En það sem fáir vita um Thomas er að hann er hálfur Íslendingur. Helga Arnardóttir talaði við hann á Heilsuvaktinni í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Lærum að fljúga / Svavar Knútur Kristinsson (Svavar Knútur Kristinsson Úr leikritinu Kafteinn Frábær)
Arietta / Dag Arnesen Trio (Edvard Grieg)
You Don’t Have To Say You Love Me / Dusty Springfield (Wickham, Donaggio, Pallavicini og Napier-Bell)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON