Við heyrðum í þættinum af áhugaverðu verkefni þar sem kvenfélagskonur tóku sig til, þegar upp kom að fjölskyldum sem hingað voru komnar frá Úkraínu vantaði mikið af nauðsynjavörum, og blésu til söfnunar. Landsþing kvenfélaga á Suðurlandi brást skjótt við og á nokkuð skömmum tíma voru sérstakir gjafapokar fylltir af einmitt nauðsynjavörum, tannburstum, tannkremi, sokkum, sjampói og og fleiru. Þær dreyfðu svo um 200 pokum til fjölskyldna þar sem þörfin var svo sannarlega til staðar. Við töluðum við Guðmundu Björnsdóttur Stackhouse, sem var ein þeirra sem stóðu að söfnuninni og Helga Guðnason, forstöðumann Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, um þetta verkefni og hvað fólk getur gert til að leggja þeim lið sem þurfa á hjálp að halda.
Í nóvember kom út bókin Ég er þinn elskari, í henni eru bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832. Bókin er tvískipt. Annars vegar inngangur þar sem ástarharmsaga þeirra Baldvins og Kristrúnar er rakin og hún sett í fræðilegt samhengi og hins vegar eru prentuð bréf Baldvins til Kristrúnar, færð til nútímamáls og skýringar. Einnig eru í viðauka þrjú bréf sem Baldvin skrifaði sr. Jóni Jónssyni á Grenjaðarstað, föður Kristrúnar, bréf sem skipta máli fyrir samhengi sögunnar. Erla Hulda Halldórsdóttir prófessor í sagnfræði og höfundur bókarinnar kom í þáttinn og sagði nánar frá þessari dramatísku ástarsögu.
Jóhanna Vilhjálmsdóttir kom svo í heilsuspjall í dag. Hún velti fyrir sér meðalhófinu um jólin og þar getur núvitund hjálpað. Að flýta sér ekki um of, njóta stundarinnar, hvers munnbita og gefa líkamanum tíma til að vinna úr og melta hátíðarmatinn.
Tónlist í þættinum í dag:
Aðfangadagskvöld / Helga Möller (Gunnar Þórðarson og Þorsteinn Eggertsson)
Ef ég nenni /LÓN og Valdimar Guðmundsson (Zucchero, texti Jónas Friðrik)
Hvít jól / Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason (Irving Berling og texti Stefán Jónsson)
Á jólunum er gleði og gaman / Eddukórinn (lagahöfundur ókunnur, texti Friðrik Guðni Þórleifsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR