Listakonan Björg Þórhallsdóttir hefur búið í Noregi nánast allt sitt líf og kom núna til Íslands til þess að kynna nýja bók sem hún skrifaði, Gleði Bjargar - Hamingjan er markmið, gleðin er afstaða. Björg er líka höfundur hinna vinsælu dagbóka Tíminn minn, sem komið hafa út hér á landi í rúman áratug. Hún hefur haslað sér völl í Noregi sem myndlistarmaður og rithöfundur og þessi nýja bók hennar var um tíma í efsta sæti bóksölulista þar í landi. Björg kom í þáttinn í dag, beint af flugvellinum, og með henni kom Hildur Blöndal, þerapisti og ráðgjafi en þær vinna saman sem þerapistar í Noregi.
Við fengum svo töfrabrögð í beinni í þættinum í dag. En Lalli töframaður, eða Lárus Blöndal Guðjónsson, kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu 20.sept. og verður með sjónhverfingar og töfrabrögð. Sinfóníuhljómsveitin mun spila vinsæl lög úr söngleikjum á borð við Frozen og Mary Poppins. Að auki er að koma út barnabókin Dagur með Lalla, eftir Lalla og hann kom í þáttinn og sagði okkur betur frá bókinni, tónleikunum og töframennskunni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins, kom svo til okkar í dag með það sem við köllum Mannleg samskipti, þar sem við skoðum með honum ýmislegt sem viðkemur mannlegum samskiptum og hvað getur haft áhrif á þau og gert þau flókin. Í dag talaði Valdimar um áföll, sem geta verið gríðarlega margvísleg og fjölbreytt, og áhrif þeirra á okkur, til dæmis í samskiptum okkar við annað fólk, ef við fáum ekki hjálp til að takast á við afleiðingar þeirra.
Tónlist í þættinum í dag:
Allur lurkum laminn / Bjarni Ara (Hilmar Oddsson)
Okkar eigin Osló / Valdimar Guðmundsson (Helgi Svavar Svavarsson og Bragi Valdimar Skúlason)
A Woman is a Something Thing / Louis Armstrong (Ira Gershwin and George Gershwin)
He Ain’t Heavy He’s My Brother / The Hollies (Bobby Scott & Bobby Russel)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR