Í síðustu viku voru veittar viðurkenningar fyrir nýsköpun í kennslu og tungumálanámi. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi Rannís, Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Veitt voru Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu og jafnframt voru veitt verðlaun í eTwinning, en það eru verefni sem tengja saman kennara og skóla í 46 löndum til að efla alþjóðlegt samtarf. Sjö íslenskir kennarar hlutu gæðaviðurkenningu í þeim flokki og þar á meðal tveir kennarar í Stapaskóla í Reykjanesbæ fyrir listrænt og tungumálamiðað verkefni sem fjallar um sjálfsmynd, húðlit og fjölbreytileika. Við hittum kennarana Hólmfríði Rún Guðmundsdóttur og Selmu Ruth Iqbal, í Stapaskóla og spjölluðum við þær um verkefnið.
Við hringdum svo í bíó, það er að segja að við heyrðum í kvikmyndaleikstjóranum Braga Þór Hinrikssyni beint í kjölfarið á prufukeyrslu af nýjustu mynd hans, Víkinni, í kvikmyndasalnum þar sem hún verður frumsýnd á miðvikudaginn. Víkin fjallar um hjónin Björn og Áslaugu sem þola varla að vera í návist hvors annars en fara þó saman í sumarbústað sinn á Hornströndum þar sem þau fá frið frá skarkala heimsins. Fríinu er snúið á hvolf þegar bandarískur ferðamaður bankar óvænt upp á. Bragi sagði okkur betur frá í viðtalinu.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var svo Ásgeir Þórhallsson Hvítaskáld rithöfundur, en hann var að senda frá sér nýja skáldsögu, Saklaust blóð í snjó, sem við fengum hann til að segja okkur aðeins frá og svo auðvitað sagði hann okkur frá því sem hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Ásgeir talaði um eftirfarandi bækur og höfunda:
Saga af svartri geit e. Perumal Murugan
Skipsskaðar á svörtum söndum e. Steinar J. Lúðvíksson
Stríð og friður e. Leo Tolstoj
Tónlist í þættinum í dag:
Við gengum tvö / Sigurður Guðmundsson og Memfismafían (Friðrik Jónsson, texti Valdimar Hólm Hallstað)
Bláu augun þín / Hljómar (Gunnar Þórðarson, texti Ólafur Gaukur Þórhallsson)
Um þig / Ellý Vilhjálms (Luiz Floriano Bonfá, texti Ólafur Gaukur Þórhallsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON