Draumar eru sammannleg fyrirbæri og draumatúlkun getur hjálpað fólki við að takast á við ýmis viðfangsefni í sínu lífi, hvort heldur sem þau eru tengd tilfinningum, aðstæðum eða jafnvel flóknum úrlausnarefnum og vandamálum. Á námskeiðinu Draumar – spegill sálarinnar sem Arna Ýrr Sigurðardóttir prestur hefur verið með í nokkur ár, byggir Arna á sinni eigin reynslu af því að nota draumavinnu í sálgæslu.
Á málþinginu „Hvað ef ég vil vera hér?“ sem fram fer á Höfn í Hornafirði í dag og á morgun er umfjöllunarefnið ungt fólk, byggðafestuna þeirra og framtíð á landsbyggðinni. Á þinginu verður ungt fólk frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi og þau munu deila reynslu sinni. Eyrún Fríða Árnadóttir verkefnastjóri HeimaHafnar var á línunni í þættinum og sagði okkur betur frá málþinginu og stöðu ungs fólks á landsbyggðinni.
Svo var það Heilsuvaktin með Helgu Arnardóttur. Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir hefur glímt við langvinn veikindi eftir að hún fékk Covid fyrir þremur árum. Hún upplifði algjöra örmögnun, minnisleysi, mæði, heilaþoku, sjón og heyrnartruflanir, meltingartruflanir og fékk einnig sjúkdóminn Potts. Hafdís þakkar vökvagjöfum, háþrýstimeðferðum og lyfjum að hún sé á betri stað en fyrir ári en hún óttast afleiðingar niðurskurðar hins opinbera. Helga talaði við Hafdísi Ingu í Heilsuvaktinni í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Heitt toddý / Ellen Kristjánsdóttir (erlent lag, texti Friðrik Erlingsson)
Draumalandið / Karlakór Reykjavíkur (Sigfús Einarsson, texti Jón Trausti (duln.f. Guðmund Magnússon))
Tico tico / Les Baxter (Les Baxter)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR