Hunda-, katta- og gæludýraeigendur þekkja það að það getur verið snúið að fá pössun fyrir dýrin ef þau þurfa að fara erlendis eða eitthvað slíkt. Arnrún Bergljótardóttir stofnaði Sporið þar sem hún býður upp á heimapössunarþjónustu fyrir gæludýr og þá í leiðinni heimilin, á meðan eigendurnir eru ekki heima. Þar hugsar hún um allar þarfir dýrsins eða dýranna og nú býður hún líka upp á ummönnun og hreyfingu hesta og fleira. Arnrún kom í þáttinn og sagði okkur aðeins frá Sporinu og hvernig þetta kom til.
BragðaGarður er tveggja daga hátíð sem fagnar matarmenningu, sjálfbærni og líffræðilegri fjölbreytni og er haldin í Garðskálanum í Grasagarði Reykjavíkur. Hátíðin er haldin af Slow Food hreyfingunni og býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Dagskráinn á föstudeginum er sérstaklega sniðin að nemendum á framhaldsskólastigi og nemendur úr matvælagreinum við Menntaskólann í Kópavogi leiða jafningjafræðslu um flest það sem snýr að mat. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari, kennari og formaður Slow Food á Íslandi kom í þáttinn ásamt Haraldi Sæmundssyni framkvæmdastjóra Hótel- og veitingaskólans í MK.
Dávur í Dali er fyndnasti Færeyingurinn á Íslandi, a.m.k. sá eini sem við vitum af sem fæst við uppistand. Hann er núna með uppistand í Tjarnarbíó þar sem hann segir í stuttu máli frá sögu Færeyja á grafalvarlegan hátt. Aðalstarf hans er sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni, það var því um nóg að ræða við hann í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Af litlum neista / Pálmi Gunnarsson (Guðmundur Ingólfsson og Magnús Haraldsson)
Fólkið í blokkinni / Eggert Þorleifsson (Ólafur Haukur Símonarson)
Hvað um mig og þig? / Ragnhildur Gísladóttir (Magnús Eiríksson)
Ljósvíkingur / Egill Ólafsson (Gunnar Þórðarson, texti Ólafur Haukur Símonarson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR