Lind, félag fólks með meðfædda ónæmisgalla, vill vekja athygli á því að félagsmenn þess geta þurft á ævilangri lyfjagjöf að halda. Fram að þessu hafa flestir farið inn á sjúkrahús á þriggja til fjögurra vikna fresti í lyfjagjöf og þurfa þá að sækja lyfjagjöfina á Landspítala sama hvar á landinu þau búa. En annar möguleiki er lyfjagjöf undir húð með dælu heima einu sinni í viku og sá möguleiki eykur lífsgæði sjúklinga verulega, tekur t.d. minni tími frá vinnu og skóla, fyrir utan mikinn sparnað fyrir heilbrigðiskerfið. Í þessari viku heldur félagið tvo fræðslufundi, annan fyrir fagfólk í heilbrigðiskerfinu og hinn fyrir almenning. Guðlaug María Bjarnadóttir, leikkona og kennari hefur átt við meðfæddan ónæmisgalla að stríða alla ævi, kom í þáttinn í dag ásamt Sigurveigu Þ. Sigurðardóttur lækni og sérfræðing í barna- og ónæmislækningum.
Við forvitnuðumst svo um málþingið Álfastund, um álfa og huldufólk, sem verður haldið í Borgarnesi á laugardaginn. Þar verða flutt stutt erindi frá ólíkum sjónarhornum sjáenda, fræðafólks, listafólks og almennings. Bryndís Fjóla Pétursdóttir garðyrkjufræðingur, heilari og starfandi völva, kom í þáttinn ásamt Sigríði Ástu Olgeirsdóttur sviðslistakonu en þær munu báðar tala á málþinginu.
Svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni, hann var í beinu sambandi frá Ísafirði þar sem hann sækir ráðstefnuna SNOW2025, sem haldin er í tilefni þess að nú eru um 30 ár frá snjóflóðunum miklu 1995. Hann sagði okkur aðeins frá því sem þar fer fram og til dæmis nýju skafrennings- og snjósöfnunarlíkani sem hann og sonur hans, Sveinn Gauti, kynntu þar. Svo sagði Einar okkurfrá fellibyljunum Humberto og Imeldu sem að óbreyttu gætu orðið að skaðræðislægð með stefnu á Bretlandseyjar og munu líka hafa áhrif á spánna hér á landi í lok vikunnar.
Tónlist í þættinum í dag:
Ég veit þú kemur / GDRN og Magnús Jóhann (Oddgeir Kristjánsson, texti Ási í Bæ)
Puppet on a String / Sandie Shaw (Bill Martin, texti Phil Coulter)
Kall sat undir kletti / Þokkabót (Jórunn Viðar, texti Halldór Björnsson)
You've Lost that Lovin' Feeling / Righteous Brothers (Phil Spector, Cynthia Weil og Barry Mann)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIr