Þann 6. desember 1982 var Kvennaathvarfið opnað og það var magnaður hópur kvenna sem stóð að baki athvarfinu. Ein þeirra var Álfheiður Ingadóttir og hún kom til okkar í dag ásamt þeim Elísabetu Sveinsdóttur og Guðnýju Pálsdóttur, en átakið Á allra vörum er hafið og nú er það átakið „Byggjum nýtt Kvennaathvarf“. Þær stöllur Guðný, Elísabet og Gróa Ásgeirsdóttir standa að baki „Á allra vörum“ og hafa styrkt mörg góðgerðarsamtök og félög. Þær hrundu átakinu af stað með því að gefa upphafskonum Kvennaathvarfsins fyrstu varasettin en átakið í þetta sinn snýst um að vekja athygli á málefni Kvennaathvarfsins með því að selja varasett frá danska merkinu Gosh, þar sem gloss, varalitur og blýantur eru saman í pakka.
Svo hittum við unga drengi, sextán ára, sem eru búnir að stofna markaðsfyrirtæki, markaðsstofuna Haen, sem vinnur í stafrænum markaðsmálum þar sem þeir nýta innsýn sína í menningu og hegðun ungs fólks til að ná betri árangri til dæmis á samfélagsmiðlum og eru nú þegar komnir með nokkra viðskiptavini. Þeir eru fjórir sem standa að Haen og tveir þeirra, Dagur Jónsson og Nataníel Máni Stefánsson komu í þáttinn í dag og sögðu okkur betur frá þessu ævintýri í þættinum.
Tónlist í þættinum í dag:
Hér á ég heima / Fjallabræður og Sverrir Bergmann (Magnús Þór Sigmundsson, texti Tómas Jónsson)
Ástrós / Bubbi Morthens og Bríet (Bubbi Morthens)
Hver hefur rétt / Bergþóra Árnadóttir (Bergþóra Árnadóttir)
Heimur allur hlær / Stefán Hilmarsson (Hallgrímur Óskarsson og Stefán Hilmarsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON