Akureyrarklínikin er fyrst sinnar tegundar í heiminum sem rekin er af hinum opinbera en um er að ræða samstarfsverkefni Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, sem þekkingar– og ráðgjafamiðstöð fyrir ME sjúkdóminn og eftirstöðvar Covid 19. Akureyrarklínikin samanstendur af þverfaglegu teymi lækna, sjúkraþjálfa, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og hjúkrunarfræðings. Teyminu er ætlað að sinna ME sjúklingum á landsvísu, bæði í staðarviðtölum en einnig fjarviðtölum. Bati getur verið mjög hægur og í sumum tilfellum lítill sem enginn. Það þarf frekari vitundarvakningu um eðli sjúkdómsins, meðferð og batahorfur. Ingunn Eir Eyjólfsdóttir og Lilja Sif Þórisdóttir, félagsráðgjafar, sögðu okkur meira frá í þættinum í dag.
Georg Lúðvíksson, sérfræðingur í heimilisbókhaldi, kom til okkar í dag með það sem við köllum fjármálin á mannamáli. Í þetta sinn fræddi hann okkur efni sem er mörgum hugleikið, húsnæðislánin. Þetta eru yfirleitt stærstu lánin sem fólk tekur á ævinni og lánaumhverfi á Íslandi er talsvert flókið, því var áhugavert að fá útskýringar á mannamáli um það sem hafa ber í huga varðandi val á láni.
Svo var það lesandi vikunnar, í þetta sinn var það Jón Knútur Ásmundsson, skrifstofumaður á Reyðarfirði, starfsmaður Austurbrúar, ljóðskáld og hundaeigandi. Hann sagði okkur frá því hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Jón talaði um eftirfarandi bækur og höfunda
Fólkið í kjallaranum e. Auði Jónsdóttur
Í skugga trjánna e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Norwegian Wood og Novelist as a Vocation e. Haruki Murakami
On Writing e. Stephen King
Aðlögun e. Þórdísi Gísladóttur.
Innanríkið – Alexíus e. Braga Ólafsson.
Teiknimyndabækur æsku hans, Svalur og Valur, Tinni og fleiri
Bloggarar, blaðamenn og pistlahöfundar um aldamótin, til dæmis
Karl Th. Birgisson, Illugi Jökulsson og Egill Helgason.
Tónlist í þætti dagsins:
Alltígóðulagi / Moses Hightower (Moses Hightower, texti Steingrímur Karl Teague og Andri Ólafsson)
Money / Pink Floyd (Roger Waters)
Borgarfjarðarminning / Stefán Helgi Stefánsson og Davíð Ólafsson (Óli H. Þórðarson, texti Böðvar Guðmundsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON