Doktor Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns. Í doktorsnámi sínu rannsakaði Erla svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn. Erla hefur haldið fjölda fyrlestra og námskeiða um svefn og svefnvenjur og stendur nú fyrir undirskriftum um að leiðrétta klukkuna á Íslandi. Leiðrétting á klukkunni felur í sér að seinka klukkunni um eina klukkustund, og halda þeim tíma allt árið. Erla segir að Ísland fylgi tímabelti sem samræmist illa sólarhæð og náttúrulegum sólargangi að staðarklukka okkar sé ekki rétt stillt miðað við legu landsins, og þetta misræmi hefur verið viðvarandi frá árinu 1968 þegar ákveðið var að festa landið á miðtíma (UTC) allt árið.
Umboðsmaður barna heldur barnaþing í fjórða sinn á fimmtudag og föstudag. Um 130 börn eru skráð á þingið, þau eru á aldrinum 11-15 ára og voru valin með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Markmið barnaþings er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni sem snerta þau. Agla Björk Kristjánsdóttir og Stef Jón Aðalsteins komu í þáttinn í dag en þau voru á síðasta barnaþingi og eru í ráðgjafahóp fyrir þingið í ár. Með þeim kom Salvör Nordal Umboðsmaður barna.
Svo var það heilsuvaktin með Helgu Arnardóttur. Í dag fræddumst við um sjúkdóminn sykursýki eitt sem minna er talað um í samanburði við sykursýki tvö sem er áunnin og hefur færst í aukana vegna heilsu- og lífsstílsbreytinga fólks undanfarin ár. Sykursýki eitt er hins vegar mjög íþyngjandi ólæknanlegur sjálfsofnæmissjúkdómur. Helga ræddi við Arndísi Finnu Ólafsdóttur sykursýkishjúkrunarfræðing á göngudeild innkirtla og gigtarsjúkdóma á Landspítalanum um byltingingarkennda tækni úr sprautum í sjálfvirkar insúlíndælur, blóðsykursnema og annan búnað sem hafa aukið lífsgæði fólks með sykursýki eitt en hún ræðir einnig um svokallaða sykursýkiskulnun sem er þekkt orð í sykursýkisheiminum. Arndís á líka tvö börn sem bæði greindust með sykursýki eitt við fjögurra ára aldur en hún hefur alltaf hvatt börnin sín að láta sjúkdóminn ekki stoppa sig.
Tónlist í þættinum i dag:
Draumaprinsinn / GÓSS (Magnús Eiríksson)
Svefninn laðar / Nýdönsk (Jón Ólafsson, texti Daníel Ágúst Haraldsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson)
All I Have To Do Is Dream / Everly Brothers (Boudleaux Bryant)
Óli lokbrá / Björgvin Halldórsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Carl Billich, texti Jakob V. Hafstein)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON