Hár blóðþrýstingur getur farið leynt og afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Á laugardaginn er Slagdagurinn okkar og af því tilefni verður boðið uppá ókeypis blóðþrýstingsmælingu og ráðgjöf í Kringlunni og á Glerártorgi á Akureyri. Þórir Steingrímsson formaður Heilaheilla og Dr. Anna Bryndís Einarsdóttir, taugasérfræðingur, yfirlæknir Taugadeildar Landspítalans, komu í þáttinn og fræddu okkur um til dæmis merkin sem við verðum að vera vakandi um, sem gætu bent til þess að slag sé hafið, en þau eru S.L.A.G.: Sjóntruflanir, Lömun útlima, Andlitslömun og Glatað mál. Ef þessi merki eiga við hjá okkur skiptir öllu máli að hringja strax í 112 því hver mínúta er mikilvæg í að lágmarka afleiðingar heilablóðfalls.
Ofbeldi virðist vera að færast í aukana hjá ungu fólki og veldur áhyggjum, hverjar eru orsakirnar og hvernig getum við brugðist við? Við fengum Soffíu Ámundadóttur, verkefnastjóra Menntafléttunnar og kennara, og Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur, leikskólakennara í þáttinn í dag. En þær fræddu okkur um málstofu á vegum Menntafléttunnar sem ber yfirskriftina Ræðum um ofbeldi og lausnir.Soffía hefur rannsakað og fjallað um ofbeldi nemenda í meistararitgerð sinni og Arnrún María rekur eigið fyrirtæki, Samtalið fræðsla ekki hræðsla þar sem hún leggur áherslu á samtalið við börn, sem sagt að fræða en ekki hræða.
Í lok þáttar glugguðum við í grein í norska ríkisútvarisins NRK, sem fjallar um hvernig kaffidrykkja getur haft áhrif á kólestrólmagn eða blóðfitu. Það er ekki sama hvernig kaffi við drekkum og hversu mikið af því. En olía í kaffi getur leitt til hækkaðs kólestrólmagns í líkamanum.
Tónlist í þættinum
Ferðabar / Spilverk þjóðanna (Spilverk þjóðanna)
Reyndu aftur / Mannakorn (Magnús Eiríksson)
Tíu dropar / Moses Hightower (Moses Hightower, texti Andri Ólafsson og Steingrímur Karl Teague)
Kaffi til Brasilíu / Stephan Hilmarz og Milljónamæringarnir (Hillard & Miles, texti Stefán Hilmarsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON