Næsta sunnudag stendur Þjóðræknisfélag Íslendinga fyrir Þjóðræknisþingi í Reykjavík, en markmið félagsins er að efla tengsl, samhyggð og samstarf milli Íslendinga heima og erlendis, fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku. Guðrún Ágústsdóttir, formaður félagsins og Pála Hallgrímsdóttir sem er í stjórn félagsins komu í þáttinn og sögðu okkur betur frá þinginu og félaginu.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi mun vera með okkur á fimmtudögum í haust með það sem við köllum Mannleg samskipti. Við kynntumst Valdimari í dag og hvar hans reynsla liggur og fórum með honum yfir það sem hann mun taka fyrir næstu fimmtudaga, til dæmis margar hliðar meðvirkni og í rauninni hvað meðvirkni er. Áföll og afleiðingar áfalla og margt fleira, sem einmitt getur haft áhrif á samskipti okkar við annað fólk, innan fjölskyldna, í ástarsamböndum, á vinnustaðnum og í rauninni út um allt. Mynstur sem við þróum, af ýmsum ástæðum, í æsku fylgja okkur í gegnum lífið og litar öll okkar samskipti við annað fólk. Hlustendur geta svo jafnvel sent spurningar á mannlegi@ruv.is sem Valdimar Þór mun gera sitt besta við að svara næstu fimmtudaga.
Uppskriftabókin er nýr matreiðsluþáttur þar sem Solla Eiríks heimsækir konur sem hafa áratuga reynslu af matargerð og fær að kíkja í uppskriftarbækur þeirra. Uppskriftabókin eru þættir sem flétta saman matarhefðum okkar við nýsköpun og náttúruauð, með það að markmiði að miðla þekkingu á milli kynslóða. Sunneva Ása Weisshappel leikstýrir þáttunum og hún kom ásamt Sollu í þáttinn í dag, en í fyrsta þættinum koma við sögu kindakæfa og sápa.
Tónlist í þættinum í dag:
Garden party / Mezzoforte (Eyþór Gunnarsson)
Peaceful Easy Feeling / Eagles (Jack Tempchin)
Slide on by / Hera Hjartardóttir (Hera Hjartardóttir)
Út hjá Haga / Bubbi Morthens (Carl Michael Bellman, íslenskur texti Hjörtur Pálsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR