15. mars er alþjóðlegur dagur svefns, eða World sleep day og er hann lokadagur Sleep Awareness Við kynntumst af því tilefni nýju smáforriti, sem er gefið út af Betri svefni, þetta er svefnsnjallforrit og það er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum, en það er eingöngu fyrir konur. SheSleep heitir það. Forritið gerir konum kleift að kortleggja eigið svefnmynstur, sækjar sér meðferð við svefnvanda í gegnum forritið, fylgjast með tíðahring sínum og áhrifum hormóna á svefn og fleira. Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Betri svefns kom í þáttinn og sagði okkur betur frá þessu snjallforriti í dag.
Hver vill starfrækja Parísarhjól við Reykjavíkurhöfn? Reykjavíkurborg auglýsir eftir samstarfsaðila til að reka parísarhjól á Miðbakkanum og er það hugsað sem spennandi viðbót við fjölbreytt borgarlíf. Parísarhjólið verður opið yfir sumartímann og í auglýsingu eru gerðar kröfur um parísarhjólið og annar búnaður þoli íslenskar aðstæður þ.m.t. vindálag og jarðhræringar. Við forvitnuðumst um þetta í þættinum, enn er hægt að sækja um því áhugasamir aðilar hafa frest til 22. mars að senda inn tillögur. Kamma Thordarson, verkefnastjóri við atvinnu- og borgarþróun á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, hefur haldið utan um þetta ferli og svaraði spurningum okkar í dag.
Svo kom Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur til okkar í veðurspjallið. Í þetta skipti sagði hann okkur frá spá um kuldakast upp úr næstu helgi og aðdraganda þess. Hann sagði svo frá miklum vetrarhita víða um norðurhvel í vetur og setti það í samhengi við lofslagsbreytingarnar. Í lokin minntist hann svo á öra lengingu dagsbirtunnar um þessar mundir og hvað vaxandi varmi nýtist illa á landi en vel í sjónum, en þar er þörungablóminn að fara af stað, t.d á Faxaflóa.
Tónlist í þættinum:
Eldar minninganna / Einar Hólm (Mason, Carr og Benedikt Axelsson)
Puppet on a String / Sandie Shaw (Bill Martin & Phil Coulter)
I Love Paris / Ella Fitzgerald (Cole Porter)
Paris in the Spring / Jo Basile og félagar (Harry Revel & Jerome Kern)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR