Við forvitnuðumst í dag um nýja sjónvarpsþáttaröð sem kallast A&B og er saga tvíburanna Arnars og Bjarka Gunnlaugssona. Þeir vöktu fljótt mikla athygli fyrir mikla hæfileika á knattspyrnuvellinum á Skaganum. Þeir fóru ungir í atvinnumennskuna, léku með landsliðinu og saga þeirra þar er rakin í þáttunum. Þeim er svo fylgt eftir í gegnum viðskiptaævintýri eftir atvinnumennskuna og hvernig þeir fundu báðir aftur fótboltann og nú er til dæmis Arnar orðinn landsliðsþjálfari hjá karlalandsliðinu. Þetta er saga drengja sem upplifa drauma sína, en lenda líka í hremmingum innan sem utan vallar. Gunnlaugur Jónsson, umsjónarmaður, handritshöfundur og framleiðandi þáttanna, kom í þáttinn ásamt Arnari, öðrum bróðurnum.
Steinunn Harðardóttir leiðsögukona hefur í 12 ár farið í pílagrímsgöngur áleiðis til Rómar en á miðöldum gengu fjölmargir íslenskir pílagrímar til Rómar. Einn þeirra var Nikulás ábóti á Munkaþverá í Eyjafirði en hann fór til Noregs og Danmerkur og gekk þaðan til Rómar og svo alla leið til Jerúsalem. Hann skrifaði leiðarvísi fyrir aðra pílagríma árið 1153-4, „Leiðarvísir og borgarskipan“ er sá eini sinnar tegundar frá þessum tíma sem hefur varðveist í Evrópu. Þegar Steinunn kom til Rómar síðasta haust stóðu yfir miklar viðgerðir á borginni vegna Heilags árs hátíðarhöldum sem hófust á jólum 2024 og standa út allt þetta ár. Heilög ár eru haldin af kaþólsku kirkjunni á 25 ára fresti. Steinunn kom í þáttinn og sagði okkur nánar frá.
Svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni. Það er hafið nýtt eldgos suðaustur af Þorbirni við Grindavík, því fór Einar aðeins yfir stöðuna, til dæmis hvað varðar gasdreifingu. Svo gerði hann aðeins upp veturinn, en með mars lauk veðurstofuvetrinum. Einar talaði svo að lokum um mikla hita sem nú geysa á fjarlægum slóðum, s.s. sunnarlega í Bandaríkjunum, í Kákasus og á Tælandi og merkilegt marsveður sem Madrídingar og Spánverjar hafa upplifað.
Tónlist í þættinum í dag:
Ég skal bíða þín / Helgi Björnsson (Michel Legrande, texti Hjördís Morthens)
April in Paris / Count Basie orchestra (Vernon Duke)
Creepin’ in / Dolly Parton og Norah Jones (Lee Alexander)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON