Við héldum áfram yfirferðinni um leikhúsin í dag, að skoða það sem verður á fjölunum í vetur. Í síðustu viku var það Tjarnarbíó, nú var komið að Borgarleikhúsinu. Egill Heiðar Anton Pálsson, leikhússtjóri, kom í þáttinn og sagði okkur allt um leikárið framundan í Borgarleikhúsinu.
Hinrik Carl Ellertsson, íslenskur matreiðslumaður og kennari við Menntaskólann í Kópavogi, er nýkominn heim úr ferð til Japans. Þar sinnti hann kynningu á norrænni matargerð í Nordic Pavilion á heimssýningunni í Osaka og hélt jafnframt masterclass í hinum virta Tsuji matreiðsluskóla. Á heimssýningunni í Osaka tók Hinrik Carl þátt í að kynna norræna matarmenningu ásamt kokkum frá Færeyjum og vakti þetta mikla athygli, en yfir þrjátíu greinar birtust í japönskum og erlendum fjölmiðlum. Við spjölluðum við Hinrik í dag.
Svo var það lesandi vikunnar, í þetta sinn var það Rósa Ólöf Ólafíudóttir, hjúkrunarfræðingur, djákni og uppeldisfræðingur. Hún er að skrifa bók um bróður sinn Lalla Johns, en hann tók af henni loforð áður en hann dó að hún myndi skrifa bók um hann. Við fengum hana til að segja okkur aðeins frá bókinni, Lalla og söfnuninni fyrir útgáfu bókarinnar á Karolinafund. En svo sagði hún okkur auðvitað líka frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Rósa talaði um eftirfarandi bækur og höfunda:
Biblían
Ástkær e. Tony Morrison
Hind's feet on high places e. Hannah Hurnard
barnabækurnar Litla ljót og Láki Jarðálfur
Litbrigði jarðarinnar e. Ólafur Jóhann Sigurðsson
Ljóð Steins Steinarrs
Tónlist í þættinum í dag:
Haust / Elly Vilhjálms og Hljómsveit Svavars Gests (Baldur Geirmundsson)
Do it / Hera Hjartardóttir (Hera Hjartardóttir)
Haust / Stefán Hilmarsson (Heimir Sindrason og Ari Harðarson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR