Sagan um Galdrakarlinn í OZ byggir á samnefndri bók Frank Baums sem öðlaðist nýtt líf með frægri kvikmynd frá 1939 þar sem Judy Garland fór með hlutverk Dóróteu. Síðan þá hafa óteljandi útgáfur litið dagsins ljós, bæði á sviði og á hvíta tjaldinu og ekkert lát virðist vera á vinsældum söngleiksins. Þar spillir ekki fyrir tónlistin með ógleymanlegum lögum á borð við Somewhere Over the Rainbow. Sýningin Galdrakarlinn í Oz verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu á laugardaginn. Hlutverk Dóróteu í þetta sinn er í höndum Þóreyjar Birgisdóttur. Þórey kom í þáttinn ásamt Björgvini Franz Gíslasyni, en hann leikur Tinkarlinn.
Um helgina fer fram árleg talning á garðfuglum á vegum Fuglaverndar. Tilgangurinn er að safna langtímaupplýsingum til þess að m.a. að fylgjast með hugsanlegum breytingum í fjölda og tegundasamsetningu. Vala Friðriksdóttir líffræðingur og félagi í Fuglavernd kom til okkar í dag og sagði okkur frá því hvernig þetta fer fram og gaf góð ráð fyrir þau sem vilja taka þátt í talningunni og fyrir þau sem vilja fóðra fugla í sínum görðum.
Svo voru það mannlegu samskiptin með Valdimari Þór Svavarssyni ráðgjafa, í þetta sinn talaði hann um samskipti á vinnustað, en þau geta svo sannarlega verið flókin og ýmislegt sem hafa má í huga.
Tónlist í þættinum:
Söknuður / Roof Tops (Oldham & Penn, texti Stefán G. Stefánsson)
Somewhere Over the Rainbow / Judy Garland (Harold Arlen, texti E.Y. Harburg)
Þín innsta þrá / B.G. og Ingibjörg (Granata & Verard, texti Jóhanna G. Erlingsson)
You’ve Lost That Loving Feeling / Righteous Brothers (Barry Mann, Cynthia Weil & Phil Spector)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON