Norðurhjálp tekur við og selur allskyns notaðar vörur; fatnað, heimilisbúnað, húsgögn, bækur, smádót, listaverk og margt fleira. Allur ágóði fer í að styrkja einstaklinga og fjölskyldur á svæðinu sem ekki hafa mikið á milli handanna. Fjórar konur sem hafa starfað lengi við sjálfboðavinnu tóku höndum saman og vinna nú 6 daga vikunnar við að taka á móti vörum og við afgreiðslu. Við heimsóttum Norðurhjálp í rúmlega 400 fm. skemmu sem þær leigja undir starfsemina rétt hjá Glerártorgi. Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir tók á móti okkur.
Svo heyrðum við í Snorra Vilhjálmssyni í Austurríki, en hann starfar þar við golfvallahönnun hjá fyrirtæki sem kennt er við einn frægasta kylfing heims. Snorri lærði golfvallahönnun í Skotlandi og vinnur nú að hönnun og byggingu glæsilegra golfvalla um nánast allan heim. Það er ekki víst að margir viti hvað felst í starfi golfvallahönnuðar. Við fengum Snorra til að segja okkur í dag.
Einar Sveinbjörnsson kom svo í veðurspjallið í dag. Í þetta sinn sagði hann okkur frá kaldri tungu sjávar undan Vestfjörðum og Húnaflóa um þessar mundir og hvernig hún mótar hitafarið. Svo talaði Einar um veðurstöðina Grímsstaði á Fjöllum. Þar er ríkir hálfgert meginlandsloftslag og hann ætlar að skoða kuldana undanfarna daga einmitt þar. Og að lokum veltum við því fyrir okkur hvort fellibyljatímanum á Atlantshafi sé lokið.
Tónlist í þættinum í dag:
Pínulítið lengur / Stefán Hilmarsson (D. Gates, texti Stefán Hilmarsson)
Litli tónlistarmaðurinn / Elly Vilhjálms (Freymóður Jóhannsson eða Tólfti September)
Build Me Up Buttercup / The Foundation (A. G. Instone, M. D'Abo og T. Macaulay)
Veðurglöggur / Spilverk Þjóðanna (Spilverk Þjóðanna)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON