Þann 28.febrúar verður Öldrunarráð Íslands með ráðstefnu með yfirskriftina Þarft þú að skipta um lykilorð - að eldast á viðsjárverðum tímum. Þar verða flutt erindi um til dæmis netöryggi, viðbrögð við netbrotum, ofbeldi sem aldraðir eru sérstaklega útsettir fyrir og hvaða aðstoð og hjálp eru í boði. Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður Droplaugarstaða Hjúkrunaheimilis og formaður Öldrunarráðsins kom til okkar í dag og sagði okkur betur frá ráðstefnunni og með henni kom Runólfur Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, en hann heldur erindi á ráðstefnunni um ofbeldi gegn öldruðum.
Páll Óskar Hjálmtýsson poppstjarna hefur um árabil safnað gömlum bíómyndum á Super 8mm kvikmyndaspólum, sem var eina leiðin fyrir fólk að vera sinn eigin dagskrárstjóri áður en VHS kom á markaðinn. Næsta fimmtudag verður Super 8 sýning í Norræna húsinu þar sem rúllað verður í gegn nokkrum stuttmyndum sem íslenskir listamenn hafa gert á þessu stórskemmtilega formi. Í lokin mun Páll Óskar gefa sýnishorn af því hvernig fólk horfði á bíó heima hjá sér, en oftast voru vinsælar myndir gefnar út í 10 mínútna útgáfum. Páll Óskar mætti í þáttinn með fangið fullt af kvikmyndum í stórum og litlum útgáfum.
Einar Sveinbjörnsson kom svo í veðurspjallið og í dag töluðum við hann um hækkandi sól og hvenær sólin fer að verma. Einnig um dægursveiflu hitans og endurkast sólar frá snjónum. Hláku er spáð um helgina og við fengum svar við spurningunni hvað er asahláka? Svo fræddumst við um skyndihlýnun upp í heiðhvolfinu en henni er spáð í lok vikunnar og mun hún móta veðrið hjá okkur fram í marsmánuð. Veðurhorfurnar lengra fram í tímann tengjast þessu fyrirbæri. Já, það var um nóg að tala við Einar Sveinbjörnsson í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
In the Mood / Glenn Miller band (Joe Garland og Andy Razaf)
Brúnaljósin brúnu / Páll Óskar Hjálmtýsson (Jenni Jónsson)
The Good the Bad & the Ugly / Hugo Montenegro (Ennio Morricone)
If Paradise is Half as Nice / Amen Corner (Battisti, Fishman & Mogol)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR