Við fræddumst í dag um verkefnið Saumó - tau með tilgang. Þetta er virkniverkefni fyrir flótta- og innflytjendakonur, þar sem þær slá nokkrar flugur í einu höggi, þær gera og selja handunnar vörur auk þess að læra íslensku og fræðast um samfélagið. Hjálpræðisherinn og Hjálparstarf kirkjunnar standa að Saumó og við fengum Hildi Loftsdóttur sem stýrir verkefninu til að segja okkur betur frá því, en þær verða með jólamarkað í húsnæði Hjálpræðishersins á sunnudaginn.
Út er komin tónlistarbók fyrir yngstu börnin og fólkið þeirra sem heitir Bambaló: fyrstu lögin okkar. Tónlistin sem börnin geta kallað fram í bókinni með því að ýta á þar til gerða takka er öll spiluð á alvöru hljóðfæri og sungin á íslensku, myndirnar eru handteiknaðar og gullfallegar eftir listakonuna Linn Janssen sem er upprunalega frá Þýskalandi en er búsett hér á landi. Bókin hvetur til skapandi og skjálausra samverustunda. Sigrún Harðardóttir tónlistarkona er höfundur bókarinnar og hún kom til okkar í dag.
Svo ef jólastressið er farið að knýja dyra hjá einhverjum þá gæti verið að við höfum verið með lausnina við því í þættinum þegar listakonan Sara Riel kom til okkar, en hún er að vinna í því að afstressa þau sem vilja fyrir jólin. Hún sem sagt býður á teikniæfingu í Ásmundarsafni á þriðjudögum, í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur. Þar leiðir hún gesti inn í ferli sjálfvirkra teikninga við undirspil tónlistar, en þetta er einmitt vinnuferli hennar sjálfrar. Sara útskýrði í dag fyrir okkur hvernig þetta gengur fyrir sig og hvernig þetta virkar í samhengi við afstressun.
Tónlist í þættinum í dag:
Ef ég nenni / Helgi Björnsson (Adelmo Fornaciari, texti Jónas Friðrik)
Amma engill / Borgardætur (M.K. Jeromy, texti Friðrik Erlingsson)
Jólin eru hér / Sigurður Guðmundsson ( Sigurður Guðmundsson, texti Bragi Valdimar Skúlason)
Snæfinnur snjókarl / Björgvin Halldórsson (Steve Nelson, texti Hinrik Bjarnason)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON