Í nóvember voru 10 ár síðan fyrsta sérsniðna dagskráin fyrir fólk með alzheimer var búin til fyrir Listasafn Íslands undir merkjum rannsóknarverkefnisins „Listir og menning sem meðferð“. Halldóra Arnardóttir listfræðingur er nýkomin frá heimsókn í MoMA safnið í New York þangað sem hún var boðin í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun dagskrár fyrir fólk með Alzheimer og aðstandendur þeirra. Við ræddum við Halldóru, Jón Snædal öldrunarlækni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur forstöðukonu hjá Listasafni Íslands í þættinum í dag.
Svo fræddumst við um Öðruvísi jóladagatal sem SOS Barnaþorpin bjóða upp á þar sem íslensk börn eru frædd um jafnaldra þeirra í öðrum löndum og hvernig aðstæður þeirra eru frábrugðnar okkar. Við fengum Hjördísi Rós Jónsdóttur, fræðslufulltrúa SOS Barnaþorpa til að segja okkur betur frá dagatalinu í dag.
Og svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni en í dag fjallaði hann um þræsing og bakflæði í veðrinu. Svo var það langtímaspáin og jólaveðrið, er of snemmt að segja eitthvað um það? Og að lokum var það spurningin um endanlegan árshita í Stykkishólmi, þar sem er yfir 180 ára mælingasaga, munu hitamet falla? Einar sagði okkur allt um þetta í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Snjókorn falla / Laddi (Bob Heatlie, texti Jónatan Garðarsson)
Meiri snjó / KK & Ellen (Jule Styne, texti Ólafur Gaukur Þórhallsson)
Jól / Þú og ég (Gunnar Þórðarson, texti Þorsteinn Eggertsson)
Sleðaferð / Skapti Ólafsson (Leroy Anderson, texti Jólakettir)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON