Samskipti, streita, fjarvistir og félagsleg sjálfbærni á vinnustöðum er nokkuð sem fyrirtækið Auðnast vinnur með og leggur áherslu á gott umhverfi fyrir starfsfólk og vinnustaði. Ragnhildur Bjarkadóttir sálfræðingur og sérfræðingur í vinnuvernd kom í þáttinn í dag og við til dæmis veltum fyrir okkur hvað felst í orðinu vinnuvernd, en hér á árum áður þýddi það aðallega gulur hjálmur en í dag svo miklu meira.
Svo skoðuðum við menntamálin, nánar tiltekið nýja þáttaröð sem heitir Kaflaskil. Í þeim er farið djúpt ofan í stöðuna í menntamálum, þar sem talað er við kennara, skólastjóra og nemendur. Er A í einum skóla það sama og A í öðrum? Hvernig ná skólarnir að sinna nemendum með fötlun eða nemendum með erlendan bakgrunn? Guðrún Hálfdánardóttir, kollegi okkar hér á Rás 1 og umsjónarmanneskja þáttaraðarinnar, var hjá okkur í dag og fór betur með okkur yfir menntamálin og efni þáttaraðarinnar og við fengum að heyra tvö brot úr þáttunum, úr viðtali Guðrúnar við Sigrúnu Blöndal deildarstjóra í 6.- 10. bekkjar í Egilsstaðaskóla. Hægt er að hlusta á þættina á sunnudögum á Rás 1 og í spilara RÚV á ruv.is
Tónlist í þættinum í dag:
Nú liggur vel á mér / Lummurnar, útsetning Gunnar Þórðarson (Óðinn G. Þórarinsson, texti Númi Þorbergsson)
Nútíminn / Þursaflokkurinn (Egill Ólafsson, texti Sigurður Bjóla Garðarsson)
Gaggó Vest / Eiríkur Hauksson (Gunnar Þórðarson, texti Ólafur Haukur Símonarson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON