Föstudagsgesturinn okkar að þessu sinni kemur að norðan, söngkonan og hjúkrunarfræðingurinn Inga Eydal. Inga hefur verið að syngja frá blautu barnsbeini, dóttir Ingimars Eydal tónlistarmanns og Ástu Sigurðardóttir, en Ásta samdi fjölmarga dægurlagatexta við lög sem hljómsveit Ingimars flutti hér á árum áður. Inga söng með hljómsveit föður síns, rak sína eigin hljómsveit um tíma auk þess að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Árið 2020 gaf hún út bók sem vakti mikla athygli, Konan sem datt upp stigann, saga af kulnun. Inga hefur í kjölfar útgáfu bókarinnar haldið fjölmarga fyrirlestra um þessa reynslu sína af kulnun og hefur einnig veitt ráðgjöf og stuðning við einstaklinga meðal annars vegna kulnunar, langvarandi veikinda og streitu. Við fórum með Ingu aftur í tímann á æskuheimilið og fetuðum okkur í gegnum lífið til dagsins í dag.
Matarspjallið var svo sent út frá þremur stöðum í dag, Reykjavík, Akureyri, þar sem Guðrún var, og Laxárdal hvar Sigurlaug Margrét var. Við ræddum um ítalskan mat, þ.e. þegar hann kom fyrst til landsins, pasta og pizzur.
Tónlist í þættinum í dag:
Hvítur Stormsveipur / Hljómsveit Ingimars Eydal (Finnur Eydal)
Gömul saga / Atlantic kvartettinn og Helena Eyjólfs (Livingstone, texti Jón Sigurðsson)
Í fyrsta sinn ég sá þig / Inga Eydal (Birger Sjöberg, Magnús Ásgeirsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON