María Pálsdóttir leikkona hefur svo sannarlega látið að sér kveða hér á Akureyri síðan hún flutti aftur þangað fyrir nokkrum árum. Hún opnaði Hælið, setur um sögu berklanna á Íslandi sem hefur hlotið mikla athygli enda fróðleg og áhrifarík sýning. Hún kom á fót Fiðringi, hæfileikakeppni grunnskólanna á Akureyri í ætt við Skrekk fyrir sunnan og í gærkvöldi kepptu níu grunnskólar til úrslita í Hofi. Nú síðast hefur hún sett á stofn fargufu á Akureyri sem hún kalla Sánuvagn Mæju. María sagði okkur frá þessu öllu í þættinum í dag.
Garðeigendur eru byrjaðir að huga að garðinum og víða er fólk að hreinsa til eftir veturinn. Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur kom til okkar í dag og fór yfir vorverkin og sagði okkur líka frá 140 ára afmæli Garðyrkjufélags Íslands, en hún er einmitt formaður félagsins.
Fyrir aldarfjórðungi, í júnímánuði árið 2000, riðu yfir Suðurland öflugir jarðfskjálftar sem skildu eftir sig djúp spor í minni þeirra sem upplifðu þá. Sveitarfélagið Rangárþing ytra stendur að verkefninu „Skjálftasögur“ með það að markmiði að safna saman persónulegum sögum af þessum stóra atburði og hvetja fólk sem upplifði skjálftana til að deila reynslu sinni, en sveitarfélagið vill nú tryggja að þessar mikilvægu frásagnir verði skrásettar. Ösp Viðarsdóttir, markaðs- og kynningafulltrúi Rangárþings ytra sagði okkur betur frá þessu verkefni, en hægt er að senda inn sögur á heimasíðu sveitarfélagsins: www.ry.is
Tónlist í þættinum í dag:
Ævilagið / Hljómsveitin Eva (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir)
Hvað um mig og þig? / Ragnhildur Gísladóttir (Magnús Eiríkisson)
Tíu dropar / Moses Hightower (Moses Hightower, texti Steingrímur Karl Teague og Andri Ólafsson)
Tíu dropar af sól / Baggalútur (Bragi Valdimar Skúlasons)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON