Endósamtökin hafa farið af stað með vitundarvakningarátak undir yfirskriftinni - Þetta er allt í hausnum á þér - þar sem vakin er athygli á þeim hindrunum sem konur og fólk með endó, eða endómetríósu, lendir í heilbrigðiskerfinu og krefjast úrbóta. Næstkomandi þriðjudag verður heimildarmynd samtakanna, Tölum um ENDÓ - ekki bara slæmir túrverkir, sýnd á RÚV. Ásdís Elín Jónsdóttir, einn af viðmælendum í myndinni, kom í þáttinn og deildi sinni reynslusögu.
8. mars næstkomandi er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni munu konur í félagsskapnum Leikhúslistakonur 50+ standa fyrir viðburði í Fríkirkjunni í þágu friðar. Maraþonlestur á ljóðum um stríð og frið. Og þær segja sjálfar „Við erum mæður og ömmur sem höfum áhyggjur af stöðu heimsmálanna og framtíð afkomenda okkar og viljum vekja athygli á því sem skáldin hafa sagt um þetta efni.“ Skipulagið verður í líkingu við lestur Passíusálmanna á föstudeginum langa, ljóðalestur sem fléttaður er saman með fallegri tónlist. Leikkonurnar Ragnheiður Steindórsdóttir og Rósa Guðný Þórsdóttir sögðu okkur frá viðburðinum í þættinum í dag og lásu hvor um sig eitt ljóð í beinni útsendingu.
Og talandi um ljóð, Skáldasuð er ný ljóða– og listahátíð sem haldin er nú í annað sinn, en hún fór fyrst fram í fyrra suður með sjó. Þessi litla listahátíð er hugarfóstur Gunnhildar Þórðardóttur myndlistarkonu, ljóðskálds og kennara. Ljóðin eru í aðalhlutverki á hátíðinni og verða til dæmis til flutt í Sundlaug Keflavíkur, það verða ljósaljóð í strætóskýlum bæjarins og hægt verður að fara í ljóðalabb, þ.e.a.s. hefur ljóðum verið komið fyrir á ýmsum gönguleiðum um bæinn. Við heyrðum í Gunnhildi í þættinum
Tónlist í þættinum í dag:
Eingetið ljóð / Bjartmar Guðlaugsson (Bjartmar Guðlaugsson)
Lítið ljóð / Rebekka Blöndal (Ásgeir Ásgeirsson og Rebekka Blöndal, texti Rebekka Blöndal og Stefán Örn Gunnlaugsson)
Ljóð um ástina / Sigrún Hjálmtýsdóttir og Spilverk Þjóðanna (Valgeir Guðjónsson og Sigurður Bjóla)
Svefnljóð / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Magnús Kjartansson, texti Kristján frá Djúpalæk)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON