Mannlegi þátturinn

Tölum um endó, ljóð í þágu friðar og Skáldasuð í Reykjanesbæ

Endósamtökin hafa farið af stað með vitundarvakningarátak undir yfirskriftinni - Þetta er allt í hausnum á þér - þar sem vakin er athygli á þeim hindrunum sem konur og fólk með endó, eða endómetríósu, lendir í heilbrigðiskerfinu og krefjast úrbóta. Næstkomandi þriðjudag verður heimildarmynd samtakanna, Tölum um ENDÓ - ekki bara slæmir túrverkir, sýnd á RÚV. Ásdís Elín Jónsdóttir, einn af viðmælendum í myndinni, kom í þáttinn og deildi sinni reynslusögu.

8. mars næstkomandi er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni munu konur í félagsskapnum Leikhúslistakonur 50+ standa fyrir viðburði í Fríkirkjunni í þágu friðar. Maraþonlestur á ljóðum um stríð og frið. Og þær segja sjálfar „Við erum mæður og ömmur sem höfum áhyggjur af stöðu heimsmálanna og framtíð afkomenda okkar og viljum vekja athygli á því sem skáldin hafa sagt um þetta efni.“ Skipulagið verður í líkingu við lestur Passíusálmanna á föstudeginum langa, ljóðalestur sem fléttaður er saman með fallegri tónlist. Leikkonurnar Ragnheiður Steindórsdóttir og Rósa Guðný Þórsdóttir sögðu okkur frá viðburðinum í þættinum í dag og lásu hvor um sig eitt ljóð í beinni útsendingu.

Og talandi um ljóð, Skáldasuð er ljóða– og listahátíð sem haldin er í annað sinn, en hún fór fyrst fram í fyrra suður með sjó. Þessi litla listahátíð er hugarfóstur Gunnhildar Þórðardóttur myndlistarkonu, ljóðskálds og kennara. Ljóðin eru í aðalhlutverki á hátíðinni og verða til dæmis til flutt í Sundlaug Keflavíkur, það verða ljósaljóð í strætóskýlum bæjarins og hægt verður fara í ljóðalabb, þ.e.a.s. hefur ljóðum verið komið fyrir á ýmsum gönguleiðum um bæinn. Við heyrðum í Gunnhildi í þættinum

Tónlist í þættinum í dag:

Eingetið ljóð / Bjartmar Guðlaugsson (Bjartmar Guðlaugsson)

Lítið ljóð / Rebekka Blöndal (Ásgeir Ásgeirsson og Rebekka Blöndal, texti Rebekka Blöndal og Stefán Örn Gunnlaugsson)

Ljóð um ástina / Sigrún Hjálmtýsdóttir og Spilverk Þjóðanna (Valgeir Guðjónsson og Sigurður Bjóla)

Svefnljóð / Vilhjálmur Vilhjálmsson (Magnús Kjartansson, texti Kristján frá Djúpalæk)

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Frumflutt

6. mars 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: mannlegi@ruv.is

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir

,