Frá 1870-1914 yfirgáfu um 16 þúsund Íslendingar heimaland sitt og hófu nýtt líf í Norður-Ameríku, þetta var um fjórðungur þjóðarinnar. Snorri West er menningarskiptaverkefni milli Íslands og afkomenda Íslendinga í Norður-Ameríku. Eitt þeirra er fjögurra vikna reisa ungra Íslendinga vestur um haf þar sem heimsóttar eru slóðir vesturfaranna og samfélög afkomenda þeirra. Sigfús Haukur Sigfússon sagði okkur í dag frá sinni reynslu, en hann tók þátt í slíkri ferð árið 2022 og með honum kom Atli Geir Halldórsson verkefnastjóri Snorra West.
Gítarveisla Björns Thoroddsen verður haldin í 21.sinn 21. febrúar. Sérstakur gestur verður sænski stórgítarleikarinn Janne Schaffer, en hann lék með ABBA nær allan þeirra starfsferil og hann hefur verið í fremstu röð í sænsku tónlistarsenunni í rúma fimm áratugi. Þeir Björn Thoroddsen og Jón Rafnsson sögðu okkur nánar frá Janne og tónleikunum í dag.
Við fengum svo póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni og kort dagsins barst að þessu sinni frá Grænhöfðaeyjum þar sem Magnús er núna staddur ásamt kátum ferðafélögum í höfuðborginni Praia. Hann sagði okkur aðeins af sögu eyjanna og framtíðarmöguleikum íbúanna, en líka af ýmis konar vanda sem við er að glíma þar suður frá. Magnús heillaðist af hinni miklu tónlistarhefð sem eyjaskeggjar hafa skapað og hann sagði okkur aðeins af þessari einstöku blöndu af afrískri og evrópskri tónlist.
Tónlist í þættinum í dag:
Meiriháttar / Rósa Guðrún Sveinsdóttir (Rósa Guðrún Sveinsdóttir)
Manitoba / Gunnar Þórðarson (Gunnar Þórðarson)
Eagle / ABBA (Benny Anderson og Björn Ulveus)
Vegir liggja til allra átta / Ellý Vilhjálms (Sigfús Halldórsson, texti Indriði G. Þorsteinsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON