Dagur íslenska táknmálsins er á morgun 11. febrúar en þann dag var Félag heyrnarlausra stofnað. Íslenska táknmálið var viðurkennt sem „jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli“ með lögum árið 2011 og bannað er að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar. Íslenska táknmálið er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og er fyrsta mál um 300 Íslendinga. Við ræddum við Valgerði Stefánsdóttur sem er formaður málnefndar um íslenskt táknmál í þættinum í dag.
Georg Lúðvíksson, sérfræðingur í heimilisfjármálum, kom svo til okkar í dag, eins og aðra mánudaga eftir áramót, það er liður sem við köllum Fjármálin á mannamáli. Í dag talaði hann um góðgerðarmál og það að gefa til baka.
Lesandi vikunnar í Mannlega þættinum í þetta sinn var Reinhold Richter, hann segist vera að stíga sín fyrstu skref sem eftirlaunaþegi og svo gaf hann á dögunum út sitt fyrsta lag sem hann samdi til minningar um besta vin sinn, ljóðskáldið Ísak Harðarson, við heyrðum lagið, Heim til vina, fyrir viðtalið. Svo sagði hann okkur auðvitað frá því hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina.
Tónlist í þættinum í dag:
Fallegur dagur / Bubbi (Bubbi Morthens)
Peningar / Hljómar (Rúnar Gunnarsson, texti Þorsteinn Eggertsson)
Heim til vina / Edgar Smári Atlason (Reinhold Richter)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON