Mannlegi þátturinn

Áfallasaga kvenna, G vítamín og Grænhöfðaeyjar

Ríflega 30 þúsund konur á aldrinum 18-69 ára tóku þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna, á árunum 2018-2019, sem gerir rannsóknina einni þeirri stærstu sinnar tegundar á heimsvísu. Konurnar svöruðu ítarlegum spurningalista, meðal annars um áföll á mismunandi ævistigum, geðræn einkenni og heilsufar á fullorðinsárum. Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum fræðikvenna við Háskóla Íslands og niðurstöðurnar hafa verið birtar í fjölmörgum vísindagreinum í virtum alþjóðlegum vísindaritum. Þær hafa meðal annars sýnt 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og það er sterkur áhættuþáttur ýmissa geðrænna einkenna/raskana og hjarta- og æðasjúkdóma. Arna Hauksdóttir prófessor í Lýðheilsuvísindum kom í þáttinn og sagði okkur betur frá og því aðstandendur rannsóknarinnar eru fara af stað með eftirfylgdarrannsókn þar sem leitað er til kvennanna 30 þúsund sem tóku þátt í upphafi.

Landssamtökin Geðhjálp hafa ýtt úr vör hinu árlega 30 daga geðræktarátaki sem ber heitið G-vítamín. Í ár er fjórða árið sem samtökin standa fyrir þessu átaki á þorranum. Geðhjálp býður því upp á 30 dagleg hollráð sem er ætlað bæta geðheilsu landsmanna yfir Þorrann. Þessir 30 skammtar af hollráðum eru kallaðir G-vítamín. Á föstudaginn verður styrktarþáttur í beinni útsendingu hér á RÚV, í sjónvarpinu, G vítamín - Gott fyrir geðheilsuna. Þar verður stóra mynd geðheilbrigðismála Íslendinga skoðuð í áhugaverðri og skemmtilegri útsendingu, eins og segir í fréttatilkynningu. Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og stjórnarmaður í Geðhjálp kom í þáttinn og sagði okkur betur frá þættinum og G vítamíninu.

Við fengum svo póstkort í dag frá Magnúsi R. Einarssyni. Í korti dagsins bar Magnús saman Kúbu og Cabo Verde þar sem hann er í heimsókn núna. Þjóðir með svipaðan uppruna en ólík örlög. Hann segir frá sérkennilegum frönskum aðalsmanni sem settist á einni eyjunni seint á nítjándu öld og varð elskaður og dáður af fólkinu og af honum er kominn mikill ættbogi. Magnús segir líka af fólki sem hann hefur kynnst í borginni Praia, fyrrum embættismanni og lækni, þjóni og þúsund þjala smiði, efnilegri söngkonu og hennar meðspilurum.

Tónlist í þætti dagsins:

Brauðbúðarbúgí / Borgardætur (Wolfie & Wood, texti Einar Thoroddsen)

Ókeypis / Egill Ólafsson og finnsk-íslenska vetrarbandalagið(Matti Kallio og Egill Ólafsson)

Let your boss be your lesson / Allison Krauss og Robert Plant ( Milt Campbell)

Jacaré sumiu / Alcione (Mauro Diniz & Sereno)

UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR

Frumflutt

31. jan. 2024

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: mannlegi@ruv.is

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

(Aftur í kvöld)

Þættir

,