Páfinn í bíó, deilur í færeyskum tónlistarheimi, Hvar er Jón?
Frans páfi, æðsti trúarleiðtogi kaþólsku kirkjunnar, er látinn 88 ára að aldri. Samkvæmt hefðinni verður nýr páfi valinn í leynilegu páfakjöri sem hefst 15 dögum eftir andlátið. Kristján og Lóa ræða tvær nýlegar bíómyndir sem fjalla um páfa og páfakjör, Two Popes og Conclave.
Í byrjun árs fóru í loftið útvarpsþættirnir Hvar er Jón? sem er samstarfsverkefni RÚV og írska ríkisútvarpsins RTÉ. Þættirnir fjalla um sporlaust hvarf Jóns Þrastar Jónssonar í Dublin árið 2019. Jón Þröstur var kominn til borgarinnar til að spila póker en ætlaði svo að ferðast með konu sinni. En snemma morguns þann 9. febrúar 2019 gekk hann út af hótelinu og ekkert hefur heyrst frá honum síðan. Írskir og íslenskir blaðamenn tóku saman höndum til að rannsaka málið og grófu upp ýmsar nýjar vísbendingar. Þættirnir átta - sem voru bæði aðgengilegir á íslensku og ensku - vöktu mikla athygli og hafa fengið um eina og hálfa milljón spilana. Úlfur Eldjárn samdi tónlistina fyrir þættina, og í síðustu viku kom tónlistin út á streymisveitum.
Færeyskur tónlistarheimur logar þessa dagana. Átökin snúast um rýmið sem ungar tónlistarkonur vilja fá og hafa tekið sér. Katrín Helga Ólafsdóttir ræðir við færeysku tónlistarkonuna Maríönnu Nagata, en samfélagsmiðlafærsla hennar hratt af stað umræðunni.
Frumflutt
22. apríl 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Lestin
Popp og pólitík
Umsjón: Kristján Guðjónsson og Lóa Björk Björnsdóttir.