Guðjón Ragnar Jónasson, rithöfundur og kennari, verður gestur okkar í upphafi þáttar en hann gefur nú út bók um forystufé. Við ræðum sögur um forystuféð og sveitina.
Í gær var greint frá því að 39. og síðasta bindi orðabókar sænsku akademíunnar væri útprentað og tilbúið, 140 árum eftir að vinna við útgáfu orðabókarinnar hófst. Nú hefst vinna við endurútgáfu fyrstu bókanna, enda töluvert af nýjum orðum í tungumálinu síðan fyrsta bindið kom út 1893. Við ætlum að ræða við Helgu Hilmisdóttur, rannsóknardósent við Árnastofnun, sem kom að gerð sænsku orðabókarinnar, um ferlið og orðabókaskrif.
Við ætlum einnig að ræða upplýsingaóreiðu á ófriðartímum við Valgerði Önnu Jóhannsdóttur, dósent við félagsvísindasvið Háskóla Íslands sem jafnframt hefur umsjón með meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við skólann. Á síðustu dögum hafa ýmsir fjölmiðlar þurft að leiðrétta eða biðjast afsökunar á ónákvæmum fréttaflutningi frá Gaza, og þá gerir það stöðuna flókna að fréttafólki virðist ekki vera hleypt inn á átakasvæðin.
Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, aðjunkt í kynjafræði við Háskóla Íslands og stjórnarkona Femínískra fjármála og Valur Gunnarsson rithöfundur og blaðamaður ræða við okkur um fréttir vikunnar.
Við fengum að sjá fyrsta þátt nýrrar íslenskrar heimildarþáttaraðar í gær. Hún heitir Svona erum við. Þar leika markaðsrannsóknir veigamikið hlutverk og leikmenn, jafnt sem sálfræðingar, velta vöngum yfir hegðun okkar og skoðunum í ákveðnum málaflokkum. Handritshöfundur þáttanna, Árni Árnason, ætlar að kíkja til okkar í spjall um það hver við erum.
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar sinn þriðja leik í Þjóðadeildinni í kvöld þegar liðið tekur á móti Danmörku á Laugardalsvelli. Helga Margrét Höskuldsdóttir, stýrir Stofunni þar sem farið verður vel yfir leikinn, bæði fyrir og eftir leik, og við ætlum að hita upp með henni hér í lok þáttar.
Lagalisti:
BILLIE EILISH - What Was I Made For.
GusGus - When we sing.
Flott - L'amour.
Tatjana, Joey Christ - Gufunes.
HOT CHIP - Eleanor.
BLUR - Parklife.
BEYONCÉ - CUFF IT.