Sérstök umræða um stöðu og framtíð Þjóðkirkjunnar verður á Alþingi í dag. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar, er málshefjandi og hann verður gestur minn í upphafi þáttar ásamt Víði Reynissyni, þingmanni Samfylkingarinnar og formanni allsherjar- og menntamálanefndar.
Sagnfræðingarnir Stefán Pálsson og Valur Gunnarsson ræða stöðuna í alþjóðamálunum, fullyrðingar Baldurs Þórhallssonar, stjórnmálafræðings, um að það sé líklega eingöngu tímaspursmál hvenær bandarískir ráðamenn tali um mikilvægi þess að þeir ráði yfir Íslandi og deilur um viðhorf rússneskra stjórnvalda til þessara mála.
Mikið eldingaveður var á sunnanverðu landinu í gær og var sundlaugum til að mynda lokað á þeim forsendum. Ég ræði við Elínu Björk Jónasdóttur, veðurfræðing, um veður sem þetta og áhrif.
Mikið hefur verið deilt síðustu daga um frumvarp um leiðrétt veiðigjöld, arðsemi í sjávarútvegi og helstu hagtölur sem varpa ljósi á greinina. Ég ætla að ræða þau mál við Þórólf Matthíasson, prófessor emeritus í hagfræði, og Ingva Þór Georgsson, framkvæmdastjóra Aflamiðlunar.
Við förum yfir íþróttir helgarinnar með fulltrúa íþróttadeildarinnar venju samkvæmt á mánudegi.
Og Besta deildin í knattspyrnu er að hefjast í vikunni og Guðmundur Benediktsson, eða Gummi Ben eins og hann betur þekktur, ræðir sumarið framundan en hann stýrir umfjöllun um deildina á Stöð 2 Sport.