Snjólaug Árnadóttir, dósent við lagadeild HR og sérfræðingur í þjóða- og hafrétti, ræðir við okkur í upphafi þáttar um nýsamþykktan viðurkenndan rétt Íslands að landgrunni og auðlindum Reykjaneshryggjar.
Tvær kjarnakonur segja okkur betur frá sínum störfum. Þetta eru þær Arndís Vilhjálmsdóttir og Þorbjörg Valgeirsdóttir sem sinna þjónustu við heimilislaust fólk í Reykjavík. Þær hafa báðar það hlutverk að sinna þjónustu „á vettvangi“.
Björn Berg Gunnarsson um fjármál heimilisins.
Erika Nótt Einarsdóttir 18 ára, bikarmeistari, Íslandsmeistari og Norðurlandameistari í hnefaleikum kíkir til okkar. Hún var að koma heim eftir þriggja mánaða æfingabúðir og Norðurlandamót þar sem hún hreppti silfur.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynnir stýrivaxtaákvörðun í dag. Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum, verður hjá okkur þegar tilkynningin berst og rýnir í ákvörðunina.
Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá Jakobsson Capital, verður gestur okkar í lok þáttar þegar við ræðum stöðu Tesla, en í umfjöllun Financial Times í gær kom fram að skortsalar hefðu hagnast um 16,2 milljarða dala á undanförnum þremur mánuðum með því að veðja á lækkun hlutabréfaverðs Tesla, en markaðsvirði fyrirtækisins hefur hrunið um rúmlega 700 milljarða dala á sama tíma.