Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ætlar að hætta sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsfundi sambandsins á fimmtudag. Við ræðum málið við Finn Yngva Kristinsson, sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar.
Á hverjum virkum degi slasast að meðaltali fleiri en átta manneskjur við vinnu sem leiðir til fjarveru. Banaslysum í mannvirkjagerð hefur þá farið fjölgandi síðustu ár og í ár hafa nú þegar orðið tvö banaslys við vinnu. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Sigrún A. Þorsteinsdóttir sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS ræða öryggi á vinnustöðum við okkur.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, og Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, verða gestir okkar fyrir átta fréttir þegar við ræðum þau tíðindi að meirihluti bæjarráðs Fjarðabyggðar skori nú á stjórnvöld að meta að nýju hagkvæmni olíuleitar á svokölluðu Drekasvæði.
Sigurdís Haraldsdóttir, krabbameinslæknir, skrifaði í gær ásamt öðrum grein um kjöt og krabbamein sem vel var lesin en þar var farið yfir samspil mataræðis og sjúkdóma. Við ræðum þessi mál við hana og Birnu Þórisdóttur, lektor í næringarfræði sem þekkir vel nýjar ráðleggingar um mataræði fyrir landsmenn.
Hvernig átti heiðið fólk í samskiptum við yfirnáttúrulegan heim goða, vætta og haugbúa á víkingaöld? Eða leitaði frétta um framtíðina og beitti fjölkynngi til þess að ýmist vernda aðra eða valda þeim skaða? Þessum spurningum ætlar Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur að reyna að svara og segir okkur betur frá.
Sævar Helgi Bragason, vísindasérfræðingur Morgunútvarpsins, fer yfir fréttir úr heimi vísindanna.