Írum var ekki öllum skemmt þegar að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, bauð Connor McGregor, í heimsókn til sín á dögunum og lýsti þar yfir miklum stuðningi við hann. Við ræðum landslagið við Sólveigu Jónsdóttur stjórnmálafræðing sem þekkir vel til á Írlandi.
Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri netöryggisfyrirtækisins Keystrike, ræðir við okkur um nýja netöryggisstefnu Bandaríkjanna og stöðuna í þeim málum hér heima.
Leggjum við aðrar áherslur á umfjöllun um ungmenni sem hafa ratað af leið eftir því hver bakgrunnur þeirra og uppruni er? Það vill Óskar Steinn Ómarsson meina. Hann er stjórnmálafræðingur og hefur mikla reynslu af vinnu með ungmennum.
Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður, fer yfir sýknu í spillingarmáli Sepps Blatter, fyrrverandi forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, og Michels Platini, fyrrverandi forseta Knattspyrnusambands Evrópu.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, kveðst hafa lent í vandræðum með lýsingu og smátt letur þegar hann flutti ræðu á leiðtogafundi menntaráðstefnunnar ISTP í Hörpu í gær. Ræðan, sem var á ensku, vakti mikil viðbrögð og fólk setti spurningarmerki við kunnáttu ráðherrans í tungumálinu. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, skrifaði færslu um ræðuna í gær og spurði hvort æskilegra væri fyrir stjórnmálamenn að tala íslensku en nota túlk. Við ræðum við Eirík.
Dómsmálaráðherra birti í gær lista yfir algengustu ættarnöfn á Íslandi. Listinn var birtur eftir að þingmaður Viðreisnar óskaði eftir upplýsingum um íslensk og erlend ættarnöfn á Íslandi. Við ætlum að ræða nöfnin og þær reglur og sögu sem tengist ættarnöfnum á Íslandi við Jóhannes B. Sigtryggsson, sérfræðing hjá Árnastofnun sem einnig situr í mannanafnanefnd.
Hvað er hægt að lesa í það sem kemur fram í Signal símtalinu sem lak hjá Bandarískum ráðamönnum? Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði fer yfir það með okkur.