Fréttir af íslenska skólakerfinu hafa undanfarin misseri fyrst og fremst tengst slakri útkomu í PISA könnunum, skorti á úrræðum, kjarabaráttu kennara, mygluðu skólahúsnæði og fleiru neikvæðu, en það er líka að finna jákvæða og skemmtilega þætti innan þess. Guðjón Ingi Eiríksson hefur lengi unnið við kennslu og hann hefur nú skrifað bókina Segir mamma þín það? samansafn gamansagna úr íslenska skólakerfinu. Guðjón kíkti í morgunkaffi.
Í gær fór fram sérstök umræða á Alþingi um samfélagsmiðla og börn þar sem mennta- og barnamálaráðherra var til svara. Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður Framsóknar var málshefjandi, en hann er sviðstjóri hjá Netvís - Netöryggismiðstöð Íslands og þekkir málaflokkinn vel. Þetta var fyrsti fundur Skúla Braga á Alþingi og er fáheyrt að varaþingmaður fái sérstaka umræðu á sínum fyrsta degi. Skúli kom til okkar og ræddi þetta mál.
Árlegt málþing Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar fram í dag undir yfirskriftinni: Staða farsældarvísa hjá börnum og ungmennum á fjórða ári innleiðingar farsældarlaga. Ragný Þóra Guðjohnsen er faglegur stjórnandi ÍÆ og hún sagði okkur meira af þessu stóra verkefni.
Flensan er á fullri ferð þessa dagana og við fengum Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að fara yfir stöðuna með okkur og gefa góð ráð.
Þing Golfsambands Íslands fór fram um nýliðna helgi. Meðal þess sem þar kom fram var að mikill vöxtur er í hreyfingunni eða um 65 prósent síðan 2019 og er 11 prósent aukning á milli ára. Golfsambandið er nú með um 3.600 börn og unglinga sem þátttakendur undir 18 ára aldri og stefna á að hlutfall þeirra verði 20 prósent af hreyfingunni til að nýliðun gerist með heilbrigðum hætti til framtíðar. Hulda Bjarnadóttir var endurkjörin forseti sambandsins til næstu tveggja ára. Hún var á línunni.
Tónlist:
Júníus Meyvant - Hailslide.
Proclaimers - I'm gonna be (500 miles).
Genesis - That's all.
Á móti sól - Fyrstu laufin.
Gracie Abrams - That's So True.
George Ezra - Shotgun.
Ske - Julietta 2.
Bríet - Cowboy killer.
Kate Bush - Running Up That Hill.
Friðrik Dór - Hlið við hlið.
Billy Joel - My life.