Margir eru þessa dagana að mæta aftur til vinnu eftir sumarfrí. Unnur Ýr Konráðsdóttir, mannauðssérfræðingur, ræðir við mig í upphafi þáttar um eitt og annað sem því tengist.
Skipt verður um handrit á sýningunni Heimur í orðum í Eddu í dag. Eitt af nýju handritunum er hin merka Trektarbók Snorra-Eddu sem alla jafna er geymd í Hollandi. Haukur Þorgeirsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun, heldur erindi um bókina í dag en fyrst mætir hann í Morgunútvarpið.
Hitabylgja hefur geisað á Spáni og í Suður-Frakklandi undanfarna daga og hlýja loftið stefnir nú í áttina að Danmörku. Ég ræði við Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, um hitann og stöðuna hér heima.
Enski boltinn fer af stað í vikunni - nú á Sýn - og spennan orðin mikil. Guðmundur Benediktsson og Kristjana Arnarsdóttir eru meðal þeirra sem koma til með að hita upp fyrir leikina og greina þá. Þau kíkja til mín.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, verður gestur minn eftir fréttayfirlitið hálf níu þegar við ræðum skólaárið framundan, ytra mat á skólum, námsmat og fleira.
Í lok þáttar kemur Arnar Pétursson, hlaupari og hlaupaþjálfari, til mín en hann setti um helgina nýtt Íslandsmet í hundrað kílómetra hlaupi.